Fjölmörg þeirra sem horfðu á annan þátt Verbúðar á RÚV í fyrrakvöld virðast hafa beðið þess full angistar að hið óhjákvæmilega myndi gerast þegar þingmaðurinn Steingrímur, í túlkun Benedikts Erlingssonar, gerði sig líklegan til afreka við vélsög með því er ætla mátti mjög fyrirsjáanlegum afleiðingum.

Í það minnsta í hugum þeirra sem muna óhapp sem varð á heimili Steingríms Hermannssonar, þá verandi forsætisráðherra, í desember 1984 þegar ráðherrann sneiddi framan af tveimur fingurgómum, löngutangar og þumalfingurs.

„Atriðið með Steingrími að saga var stórkostlegt,“ skrifaði Egill Helgason á Facebook að þættinum loknum.

„Atriðið með Steingrími að saga var stórkostlegt. Ég held ég hafi aldrei verið jafn spenntur yfir sjónvarpsefni,“ skrifaði samfélags- og stjórnmálarýnirinn Egill Helgason á Facebook-vegg sinn og viðbrögðin létu ekki á sér standa:

„Ég gat ekki horft!“, „Ég hélt fyrir augun“, „Furðulega vel lukkað atriði. Skipti öllu að kalla greyið Steingrím“, „Steingrímur var einn af bestu stjórnmálamönnum síðustu aldar“, „Ég var hættur að geta horft á þetta - maður vissi svo sannarlega hvað var í vændum, „Gat ekki horft því ég vissi hvað mundi gerast“.

„Ég hélt fyrir augun,“ er meðal upphróðana á Facebook-vegg Egils Helgasonar í kjölfar þess að RÚV sýndi annan þátt Verbúðarinnar á sunnudagskvöld.

„Sammála. Ég gat ekki horft í rúmlega mínútu“, „Nei ég labbaði frá sjónvarpinu en var samt að horfa svona til hliðar. Þetta var rosalegt“ og „Loksins vissi ég fyrir fram hvað gerist, og sagði konunni sem er óendanlega betri í því. Horfðum því bæði undan“ voru meðal ummæla sem féllu við stöðufærslu Egils.

Dagur stóð þrisvar upp

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri þekkir sögu Steingríms manna best, eftir að hafa skrifað ævisögu hans í þremur veglegum bindum, og átti því að vonum erfitt með atriðið.

Steingrímur heitinn ásamt ungum ævisöguritara sínum sem lét sig ekki muna um að rekja feril Steingríms í þremur vænum bindum.
Fréttablaðið/S.Jökull

„Já, hef horft á Verbúðina mér til mikillar ánægju. Átti mjög erfitt með þetta atriði því það lá í loftinu að Steingrímur myndi saga í fingurinn á sér,“ segir hann. „Þetta var svo fyrirséð að ég gat varla horft á þetta og held ég hafi staðið þrisvar upp meðan á atriðinu stóð.“

Dagur segir rétt að Steingrímur hafi sannarlega sagað í þumalinn á sér. „Og missti reyndar hluta hans. Sú sög var í kjallaranum hjá honum og ég held ég muni það rétt að hann hafi verið að saga rekavið af Ströndum í panel í kjallarann hjá sér þegar slysið var.

Steingrímur heitinn ásamt ungum ævisöguritara sínum sem lét sig ekki muna um að rekja feril Steingríms í þremur vænum bindum.
Mynd/DV

Sannarlega ekki að viðstöddum blaðamönnum en sannleikurinn er sá að þrátt fyrir þetta slys þá var Steingrímur lunkinn smiður. Hann fékk ýmsu góðu áorkað í pólitíkinni en var aldrei stoltari en þegar hann var að sýna manni smíðaverkin,“ segir ævisagnaritarinn Dagur. B. Eggertsson.

Handavinna lýtalæknis

Slysið fór þó ekki fram hjá fjölmiðlum og þannig greindi DV frá því á baksíðu þriðjudaginn 11. desember 1984 þar sem blaðamaðurinn Eiríkur Jónsson gekk hreint til verks og fékk óhappið staðfest hjá forsætisráðherrafrúnni Eddu Guðmundsdóttur.

„En hugsaðu þér, sko. Eiríkur hringir bara heim í Eddu. Og það var eins og þegar ég náði honum á hækjunum þá var það bara vegna þess að ég hringdi í Mávanesið. Og spurði bara hvernig Steingrímur hefði það? „Denni var að fara í vinnuna,“ svaraði Edda og é
Fréttablaðið/Samsett

„Þetta fór betur en á horfðist. Þó að Steingrímur sé þaulvanur vélsöginni fór hann með 3 fingur í hana og var mesta mildi að hægt var að bjarga þeim,“ sagði Edda meðal annars.

„Þetta var mikil handavinna fyrir lýtalækni en mesta mildi að ekki fór verr. Steingrímur var að koma heim og er nú að jafna sig eftir svæfinguna,“ bætti Edda við um slysið sem varð sunnudaginn áður og reiknaði með að hann yrði kominn til starfa daginn sem fréttin birtist.

„Ég man eftir mynd sem ég tók af honum þar sem hann var reifaður,“ segir Gunnar V. Andrésson, ljósmyndari DV, og minnist þess að hafa beðið Steingrím um að sýna sér höndina en hann hafi beðið hann um að láta ekki svona.

Hann hafi þó skömmu síðar sætt færis þegar Steingrímur fundaði með Norðurlandaráðherrum og lyfti hendinni til að sýna fingurna. „Þá tók ég mynd sem ég man að var notuð í blaðinu. Hann var ótrúlega flottur kall. Mjög sérstök týpa. Þarna var allt uppi á borðinu. Heldurðu að einhver ráðherra í dag myndi láta það vitnast að hann hefði sagað í puttann á sér?“ spyr Gunnar og hlær.