Spánn er líklega vinsælasti sumardvalarstaður Íslendinga og það er engin furða að marga Frónbúa dreymi um að vera þar allan ársins hring. En hvernig ætli það sé í raun og veru að búa á Spáni og hvers vegna flytja svo margir þangað?

Spánn er fjölbreytt og fjölmenningarlegt land þar sem siðir, venjur og tungumál eru ólík milli svæða. Í suðrinu er lífsstíllinn almennt afslappaðri og síestan í hávegum höfð, á meðan lífið gerist hraðar í norðrinu. En það eru nokkrir þættir sem eiga almennt við um allt landið.

Bongóblíða og fegurð

Á Spáni skín sólin næstum alla daga og veturnir eru ekki kaldir. En Spánn er ekki bara sandur og sól, heldur er landslagið mjög fjölbreytt og veðurfarið ólíkt milli svæða, þannig að hver getur fundið eitthvað við sitt hæfi. Plöntulífið á Spáni er líka fjölskrúðugt allan ársins hring, sem fegrar umhverfið.

Menning og saga

Saga Spánar er viðburðarík og fjölbreytt, en ýmsir ólíkir hópar fólks hafa stjórnað landinu í gegnum árþúsundin. Fyrir vikið hefur hvert svæði sína ólíku sögu og menningu og því er hægt að sjá ótrúlega mikið af alls kyns fornminjum, gömlum listaverkum, söfnum, sögulegum stöðum og mögnuðum arkitektúr á Spáni.

Frábær heilbrigðisþjónusta

Allir íbúar Spánar fá góða ókeypis heilbrigðisþjónustu. Þegar þarf að leita til sérfræðinga er það líka almennt ódýrara en á öðrum Vesturlöndum.

Mikil lífsgæði

Það er mikið talað um lífsgæðin á Spáni. Sólskinið, Miðjarðarhafsmataræðið og afslappaður lífsstíll eru allt ástæður fyrir því að Spánverjar lifa lengur en flestar aðrar þjóðir. Mjög víða er síestan höfð í heiðri, sem þýðir að tíminn milli tvö og fjögur er hvíldartími, líka á virkum dögum. Fólk byrjar almennt að vinna klukkan 10 á morgnana og hættir klukkan 20, en það er líka algengt að Spánverjar vinni bara 35 stundir á viku. Spánverjar vilja njóta lífsins, taka því rólega og forðast streitu. Það er yfirleitt kostur, en getur samt orðið ókostur þegar liggur á.

Ódýrt að lifa

Það er ekki dýrt að vera til á Spáni. Matur, skemmtun og húsnæði er allt mun ódýrara en í öðrum Evrópulöndum. Þetta er stór hluti af ástæðunni fyrir því að landið er svo vinsælt hjá þeim sem vilja flytja frá heimalandinu. Það er líka ekki þörf á að vera á bíl í borgunum, því þar eru góðar almenningssamgöngur.

Nóg af húsnæði

Það er mikið framboð af húsnæði á Spáni þannig að það er úr nægu að velja, sama í hvaða verðflokki fólk er að leita. Það er bæði mikið af ódýrum húsum og íbúðum og líka fínum. Fasteignamarkaðurinn á Spáni er fjölbreyttur og býður upp á mikið af tækifærum.

Gott næturlíf

Næturlífið á Spáni er frægt. Spánverjum finnst gaman að djamma og frægustu plötusnúðarnir heimsækja spænskar borgir reglulega. En auk næturklúbbanna er líka alltaf mikið líf á veitingastöðum og það skemmir ekki fyrir að maturinn á Spáni er almennt frábær og spænsk vín eru talin meðal þeirra bestu í heimi.

Gott skólakerfi

Grunn- og framhaldsskóli eru skylda á Spáni og það eru ókeypis ríkisskólar í boði fyrir alla íbúa, en þar er einungis kennt á spænsku. Þeir sem vilja senda börn í skóla á öðru tungumáli eða njóta annarra fríðinda geta nýtt sér einkaskóla, sem eru vinsælir á Spáni, en þá er aðallega að finna í stórborgunum. Á Spáni eru líka mjög góðir háskólar, en líkt og hér á Íslandi er háskólamenntun ekki ókeypis.