Manni líður alltaf aðeins betur ef maður getur prúttað verðið örlítið upp,“ segir kvikmyndaáhugamaðurinn Stefán Atli Rúnarsson sem var fljótur að koma upprunalegu Astrópíu-veggspjaldi í verð á Brask og brall á Facebook um helgina með þessum orðum:

„Langar þig að eignast part af íslenskri kvikmyndasögu. Þetta glæsilega veggspjald er í frábæru standi og fylgir rammi með. Einnig fylgir með skemmtileg saga um hvernig ég eignaðist plakatið!“

Verðmiðinn sem Stefán Atli setti á myndina, rammann og upprunasöguna hljóðaði upp á 25.000 krónur og eftir nokkurt glens og grín á sölusíðunni stóð hann uppi 17.000 krónum ríkari og vel sáttur þar sem minnstu munaði að hann léti Ragnhildi Steinunni og stóðið úr nördabúðinni Astrópíu fara milliliða- og skilagjaldslaust lóðbeint í Sorpu.

„Ég og vinur minn vorum alltaf eitthvað að leika okkur við að gera stuttmyndir og eitthvað þannig þegar við vorum í 6. og 7. bekk eða eitthvað svoleiðis. Júlíus Kemp, leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi, er frændi vinar míns og við fengum mikinn innblástur frá honum á þessum tíma,“ segir Stefán Atli um sögu plakatsins sem hann lét fylgja því og rammanum sem bónus við söluna.

Bíóhöll minnnganna

Astrópía var frumsýnd í ágúst 2007 en myndin hverfðist um gelluna Hildi sem varð óvænt drottning nördanna í Nexus-ígildinu Astrópíu þar sem ekki minni spámenn en Pétur Jóhann og Sveppi voru fremstir meðal jafningja.

Hildur og lúðaherinn voru vel varin í rammanum góða og eru eins og ný.

Ottó Geir Borg og Jóhann Ævar Grímsson skrifuðu handritið, Gunnar B. Guðmundsson leikstýrði en Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp voru meðal framleiðenda og sem slíkur fól Júlíus bíóguttunum það mikilvæga hlutverk að hanga í miðasölunni og hafa auga með gestum og gæta þess að þeir keyptu ekki ódýrari miða á útlenskar bíómyndir til þess að svindla sér síðan inn á Astrópíu.

„Við vorum þarna í smá eftirliti og fengum einhvern aukapening fyrir að standa þennan vörð. Við vorum svo í Bíóhöllinni í Álfabakka þegar myndin var að hætta í sýningu og þegar ég sá að það var verið að taka þetta plakat niður datt mér í hug að það gæti orðið góður minjagripur um um þennan tíma og þessa reynslu.“

Úr öndvegi á haugana

Stefán Atli rammaði síðan plakatið inn og þannig fékk það að njóta sín í herberginu hans yfir skrifborðinu í nokkur ár en endaði síðan, eins og gengur, ofan í geymslu hjá móður hans þegar hann flutti að heiman.

„Ég var svo að hjálpa mömmu að flytja núna og rakst á plakatið í rammanum og ætlaði nú fyrst bara að henda því í Sorpu,“ segir Stefán sem staldraði þó aðeins við og ákvað að kanna möguleikann á því að gefa Astrópíu framhaldslíf og jafnvel hafa eitthvað upp úr því í leiðinni.

Astrópía fjallar um dekruðu partípíuna Hildi sem neyðist til þess að standa á eigin fótum eftir að kærasta hennar er stungið í steininn. Hún fær vinnu í nördabúðinni Astrópíu þar sem hún kynnist svo náið alls konar furðufuglum, hasarblöðum og hlutverkjale

„Þetta er alveg áhugavert plakat og Astrópía orðin ákveðin költ bíómynd þannig að ég ákvað að láta á þetta reyna á Brask og brall og fékk litla bróður minn í lið með mér gegn því að hann fengi prósentur af sölunni.“

Auglýsingin á Facebook vakti strax mikla athygli og umræður sem stjarna myndarinnar, Ragnhildur Steinunn, blandaði sér í auk þess sem hnippt var í einn handritshöfundanna, Ottó Geir Borg, og hann spurður hvort þetta væri ekki akkúrat það sem hann vantaði í stofuna.

Einhver gagntilboð slæddust einnig með glensinu og nostalgíunni, meðal annars eitt upp á 15.000 krónur og svo þetta sem auðvelt var að hafna: „Býð þér tvær Bingókúlur fyrir plakatið og þú mátt halda rammanum. Endilega láttu heyra í þér ef þetta vekur áhuga.“

Stefán Atli viðurkennir fúslega að vonir hans hafi glæðst til muna eftir að Ragnhildur Steinunn blandaði sér í málið. „Ég hefði vel getað hugsað mér að gefa henni það en svo datt mér líka alveg í hug að áhugi hennar á því gæti orðið til þess að auðvelda söluna og svo fékk ég bara þetta tilboð,“ segir Stefán Atli sem treystir sér til þess að varðveita bíóbernskuminningarnar sjálfur eftir að nördavalkyrjan Hildur er horfin á vit nýrra ævintýra.