Ragnheiður útskrifaðist úr námi í leirlist árið 1991 í Strassborg í Frakklandi og var með vinnustofu þar fyrstu árin. Hún fór svo til Mílanó á Ítalíu og lærði iðnhönnun. Hún flutti loks heim til Íslands 1999. Árið 2000 var hún komin með vinnustofu hér á landi og hefur unnið við leirlist samhliða öðrum störfum síðan. Ragnheiður býr aðallega til hluti með notagildi í huga eins og bolla, skálar og aðra nytjahluti eins og blómavasa, lampa og fleira fyrir heimilið. Engin af verkum hennar eru nákvæmlega eins. Hún leyfir handverkinu að njóta sín og vill að það sjáist að hlutirnir eru handgerðir.

Ragnheiður segir verk sín vísa í senn til hversdagslegra hluta og náttúrulegra forma eins og fyrirbæra úr frumformum jarðarinnar og þjóðtrúar. Þau séu eftirmyndir með nýtt hlutverk í samtíðinni. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

„Ég segi oft þegar maður er að vinna að verkum sem eru gerð með notagildi í huga, þá er sagan á bak við verkið oft mikilvægari en notagildið. Það er hægt að nota flestalla hluti sem ég geri, en ég segi stundum: Ef hluturinn er bara til þess að njóta hans og horfa á hann, er það ekki nytjahlutur líka?“ segir Ragnheiður og hlær.

„Hver hlutur sem ég geri er einstakur. Eins og þegar ég geri bolla sem ég steypi í gifsform þá er það í vinnsluferlinu sem hver og einn verður ólíkur.“

Ragnheiður segir verk sín vísa í senn til hversdagslegra hluta og náttúrulegra forma eins og fyrirbæra úr frumformum jarðarinnar og þjóðtrúar. Þau séu eftirmyndir með nýtt hlutverk í samtíðinni.

Leirinn togaði í hana

„Þegar ég kom frá Ítalíu eftir nám í iðnhönnun hafði ég hugsað mér að vinna meira sem hönnuður en ekki endilega að búa hlutina til sjálf. Þá var ég alveg búin að hugsa um að nota önnur efni en leir. En leirinn togaði svo í mig. Þegar ég vann með leir þá var ég hamingjusöm. Ég held ég sé bara svona ástríðufull í leirnum,“ segir hún.

„Leirinn er lifandi efni. Að vinna með hann er nokkurs konar samtal, ég get gert allt sem ég vil. Ég get framkvæmt allar mínar hugmyndir. Ég vinn með mismunandi tækni, ég bæði renni og steypi í mót og sameina þessa tvo þætti en ég hef alltaf litið á tæknina sjálfa sem verkfæri. Ég ræð bara svo vel við leirinn. Hann hentar mér vel og við tölum vel saman, En leirinn er á sama tíma harður húsbóndi. Maður byrjar ekki á einhverju verki og leggur það svo frá sér og byrjar aftur eftir hálfan mánuð. Það verður að klára verkið þangað til það fer í þurrk. Hlutirnir þurfa að klárast innan ákveðins tíma.“

Ragnheiður flutti vinnustofu sýna nýlega á Njálsgötu 58a og þar er opið fyrir gesti og gangandi þegar hún er að vinna.

Ragnheiður útskýrir að vinna við ólíkar tegundir leirs geti verið mjög mismunandi, en hún vinnur með postulín og steinleir í mismunandi litum og grófleika.

„Þetta er misfrekur leir. Ég kalla alltaf postulínið, sem er fínasti leirinn, hefðardömuna. Hún er mjög frek á mann, hefur gott minni og ef maður klúðrar einhverju þá lætur hún mann vita í síðustu brennslunni,“ segir hún.

„Að vinna með grófari leirinn er meira eins og verkamannaiðn. Maður getur unnið grófara með hann. En það þarf að þekkja efnin vel. Það er ólíkt að vinna með ólíkar tegundir leirs og það er það sem er svo spennandi.“

Fólk vill síður fjöldaframleiðslu

Ragnheiður flutti vinnustofu sína nýlega á Njálsgötu 58a og þar er opið fyrir gesti og gangandi þegar hún er að vinna.

„Ég flutti í byrjun sumars og er að koma mér fyrir. En þetta er í fyrsta sinn sem ég er ein með vinnustofu. Ég er með litla búð þar sem er alltaf opin þegar ég er á vinnustofunni. Ég reyni að vera þar alltaf seinnipartinn og eða á laugardögum. En það er ekki alveg fastmótað. Ef ég er ekki með opið getur fólk haft samband við mig gegnum Instagram eða Facebook, eða bara hringt,“ segir hún.

Ragnheiður segist fá margt ungt fólk til sín á vinnustofuna núna sem er umhverfismeðvitað og vill til dæmis ekki drekka úr plastbollum.

„Fólk kemur kannski og kaupir einn bolla eða einn disk og kemur svo aftur og kaupir annan. Fólk er farið að hugsa meira um að kaupa ekki fjöldaframleitt keramik og vill kaupa eitthvað sem endist lengur,“ útskýrir hún.

Ragnheiður segir vinnu við ólíkar tegundir leirs geta verið mjög mismunandi, en hún vinnur með postulín og steinleir í mismunandi litum og grófleika.
Ragnheiður býr aðallega til hluti með notagildi í huga eins og bolla, skálar og aðra nytjahluti eins og blómavasa, lampa og fleira fyrir heimilið.

Ragnheiður kennir í Listaháskólanum námskeið fyrir fyrsta árs nema í vöruhönnun. Hún segir vöruhönnun og iðnhönnun hafa breyst mikið frá því hún var að læra.

„Þegar ég var í MA-náminu vorum við að pæla í öppum. Sem er eitthvað sem allir þekkja í dag. En okkur fannst alveg frábær tilhugsun að vera að labba niður einhverja götu og kveikja á einhverju appi í síma sem segði okkur hvaða veitingahús væri í næsta nágrenni. Þetta var árið 1998, löngu áður en snjallsímar komu á markað og þetta var ekkert til þá,“ segir hún hlæjandi.

„En krakkarnir uppi í Listaháskóla í dag eru mikið að pæla í efnum og umhverfi og umhverfismeðvitund. Þetta breytist með tímanum. Margir halda að maður sé bara að hanna einhverja hluti, en sumir fara í að hanna mat. Þetta er mjög fjölbreytt.“

Stórafmæli Leirlistafélagsins

Ragnheiður segir mikla grósku í leirlist á Íslandi þrátt fyrir að Listaháskólinn sé hættur að kenna leirlist. Leirlistafélag Íslands hefur rúmlega 60 meðlimi og félagið fagnar 40 ára afmæli í ár. Ragnheiður er í afmælisnefnd félagsins sem hefur skipulagt fjölbreytta afmælisdagskrá.

„Hjá félaginu er núna í gangi farsýning sem heitir Hvítur, næsta sýning er í Vitanum á Akranesi 4. september. Það er síðasti hlutinn af þeirri sýningu. Svo er lokasýning Leirlistafélagsins 16. október. Það er samsýning en við í nefndinni erum að skipuleggja hana,“ segir hún.

„Margir héldu þegar Listaháskólinn hætti að kenna leirlist að við yrðum bara síðustu móhíkanarnir. En svo hefur Myndlistaskólinn í Reykjavík boðið upp á fornám og fólk hefur þá kannski klárað erlendis, svo það er alltaf að koma inn ungt fólk í félagið. Það er frábært því það kemur með aðrar áherslur og hugmyndir sem er bara spennandi. Ég held að leirinn deyi aldrei út.“