Barokkbandið Brák, í samstarfi við Óperudaga sem hefjast í dag, hafa fengið til liðs við sig söngkonurnar Guju Sandholt og Hrafnhildi Árnadóttur Hafstað til að færa ykkur sannkallaða Händel-veislu.

Sjá einnig: Ópera um alla Reykjavík

Þær þær Guja og Hrafnhildur munu ásamt Brák flytja vel valdar aríur eftir Georg Friedrich Händel ásamt hljóðfæratónlist efitir Händel og samtímamenn hans þá Vivaldi, Sammartini og Galuppi.

Segir í tilkynningu að tónleikagestum verði boðið í ferðalag þar sem ástir og örlög taka völdin og tónarnir kitla taugaendana.

Barokkbandið Brák er skipað hópi hljóðfæraleikara sem hefur sérhæft sig að hluta til í upprunaspilamennsku í námi erlendis og vill nýta þessa þekkingu sína til tónleikahalds og verkefna á Íslandi.

Elfa Rún Kristinsdóttir er listrænn stjórnandi og leiðari bandsins en hún er margverðlaunaður fiðluleikari og hefur komið fram á tónleikasviðum um heim allan ýmist sem einleikari, konsertmeistari eða kammermúsíkspilari.

Barokkbandið Brák hefur verið starfrækt frá árinu 2014 en bandið var stofnað af fiðluleikurunum Elfu Rún Kristinsdóttur, Laufeyju Jensdóttur og Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur.

Tónleikarnir eru í Fríkirkjunni í kvöld, þann 20. Október, klukkan 20.00. Nánari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér.