Það er enginn vafi á því að ég mun aldrei elska neina eins og ég elska Svölu. Í henni hitti ég sálufélaga minn og ég trúi því að ef maður er heppinn, þá gerist slíkt bara einu sinni á lífsleiðinni,“ segir húsvíski sjómaðurinn Kristján Einar Sigurbjörnsson, sá sem bað söngkonuna Svölu Björgvins um að verða eiginkona sín í blikandi ljósadýrð aðventunnar.

„Ég vil nú helst ekki segja frá bónorðinu í smáatriðum, en ég get vottað að þar var mikið af rósum, kertum og rómantík upp á tíu.“

Sama um fordóma annarra

Þau Kristján og Svala kynntust í gegnum sameiginlegan vin þegar sumri fór að halla í fyrra. Í kjölfarið fóru þau að spjalla á Instagram, urðu strax góðir vinir og eitt leiddi af öðru.

„Eftir það varð ekki aftur snúið,“ segir Kristján, en hvernig fór hann að því að fanga hjarta Svölu?

„Það var reyndar ótrúlega létt því það eina sem ég gerði var að vera ég sjálfur. Og ótrúlegt en satt, þá virkaði það.“

Hann þarf ekki að hugsa sig um, spurður hvað honum finnst fallegast við Svölu.

„Það er persónuleiki hennar, það greip mig strax hvað hún er góðhjörtuð, en ég verð að viðurkenna að hennar hægra eyra kemur þar líka sterkt inn,“ segir Kristján kíminn og sannfærður um að Svala sé sú eina rétta.

„Ég held að enginn geti verið viss alveg um leið, en ég þurfti ekki meira en örfáa daga til að átta mig á því að hún væri sú rétta fyrir mig.“

Á þeim Kristjáni og Svölu er töluverður aldursmunur.

„Mörgum gæti fundist það skipta máli, en það skiptir sjálfan mig engu máli. Við finnum stundum fyrir fordómum en þó mun meira fyrir stuðningi frá alls konar fólki sem trúir og veit að ástin spyr ekki um aldur. Ég hef aldrei látið álit annarra hafa áhrif á mínar ákvarðanir í lífinu og er sama um allt umtal. Ég geri það sem gerir mig hamingjusaman, sama hvað öðru fólki finnst um það.“

Kristján unir sér vel á sjónum og nýtur þess til hins ítrasta að vera faðir fjögurra ára dóttur sinnar. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Varð Kleini eftir kleinustuld

Kristján er fæddur og uppalinn á Húsavík, þaðan sem hann fékk viðurnefnið Kleini.

„Þegar ég var yngri átti ég það oft til að hjálpa ömmu Svönu að baka kleinur og segjum sem svo að ef við ætluðum að baka hundrað kleinur varð hún alltaf jafn hissa þegar aðeins sjötíu kleinur skiluðu sér úr bakstrinum. Eftir að föðurbróðir minn sá mig svo stela kleinum hægri, vinstri, ákvað hann að byrja að kalla mig Kleina og það bara festist við mig,“ útskýrir Kristján og hlær.

„Ég ætla ekki að ljúga að þér, en ég var fjandi erfiður krakki, ofvirkur með athyglisbrest og gat ekki setið kyrr í mínútu. Því voru foreldrar mínir í fullu starfi við að fylgjast með mér. En ég var líka mjög tilfinninganæmt barn og músíkalskur. Sem unglingur lifði ég svolitlu rokkaralífi en hef sem betur fer lokið þeim kafla. Æskudraumarnir snerust um að verða tónlistarmaður og að vinna í tónlist, og enn í dag eru það draumar mínir.“

En hvaða mann skyldi Kristján geyma í dag?

„Í fljótu bragði myndi ég lýsa mér sem fyndnum, metnaðarfullum, einlægum, hreinskilnum og rómantískum. Ég er ungur maður með stóra drauma, vinur vina minna og sem fylgir hjartanu. Svo vil ég meina að ég hafi mikla danshæfileika, þó svo að engum öðrum finnst það,“ segir Kristján glettinn.

Hann ákvað að flytja suður á mölina því honum hentaði ekki lengur að búa í litlu bæjarfélagi.

„Auðvitað var gott og mikið frelsi að alast upp sem barn á Húsavík, en eftir því sem ég eltist langaði mig að búa í stærra samfélagi. Ég fer eins oft og ég get norður til að heimsækja fjölskylduna. Foreldrar mínir, Dunna og Siddi, og systir mín Helga búa enn á Húsavík, og önnur systir mín, Kristjana, býr í Plymouth á Englandi með manni sínum Chris og guðdóttur minni, Jöru. Ég held að besta veganestið sem ég fékk að heiman hafi verið að elta drauma mína og láta þá rætast.“

Gott að núllstilla sig á sjó

Kristján hefur sótt sjóinn undanfarin fimm ár og er nú á skipi með heimahöfn í Reykjavík.

„Ég er uppalinn í miklum útgerðarbæ og hef upp síðkastið starfað á því magnaða skipi, Helgu Maríu í eigu Brims. Sjórinn herðir mann og þetta er erfið vinna, en hún gefur mikið og þarna getur maður kúplað sig út úr lífinu í borginni og núllstillt hugann, sem mér finnst nauðsynlegt af og til. Ég er mjög ánægður með að vera sjómaður eins og er, en hver veit nema lífið taki aðra stefnu einn daginn.“

Fyrir fjórum árum kom svo lítil manneskja inn í líf Kristjáns.

„Ég var nítján ára þegar ég eignaðist dóttur mína, Aþenu Dís. Það breytti lífi mínu og gaf mér bestu gjöf sem nokkur maður gæti óskað sér. Ég tek þátt í uppeldi hennar eins mikið og föðurrétturinn leyfir. Dóttir mín er eitt það besta sem hefur komið fyrir mig og mig langar að eignast fleiri börn í framtíðinni,“ segir Kristján, fullur af föðurást til Aþenu Dísar.

Um hálsinn ber hann oft kross í festi og á bringu hans er húðflúraður stór kross.

„Já, ég er heldur betur trúmaður. Guð blessi Ísland.“

Kristján segir framtíðina vera með Svölu og ekki sé loku fyrir það skotið að þau taki upp á því að búa til tónlist saman. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Bó og Krummi jafn góðir

Kristján vissi eins og velflestir landsmenn hver Svala Björgvins var áður en Amor skaut í þau ástarörvum.

„Mér þótti Svala alltaf ein magnaðasta söngkona Íslands og vissi auðvitað hver hún var, en get ekki sagt að ég hafi verið að gægjast á gluggann hjá henni á kvöldin,“ segir hann stríðnislega. Hans uppáhaldslag með Svölu er Dreams come true af plötu hennar, Bird of freedom.

Sjálfur syngur Kristján, spilar á gítar og hefur samið eigin lög og texta frá barnsaldri, en hvor ætli honum þyki betri, Björgvin Halldórsson tengdapabbi eða Krummi, tilvonandi mágur?

„Ertu að reyna að reyna að koma mér í vandræði í næsta fjölskylduboði?“ spyr Kristján og skellir upp úr. „Þeir eru báðir frábærir tónlistarmenn á allan hátt og ég hreinlega gæti ekki gert upp á milli þeirra. Björgvin er með bestu tónlistarmönnum Íslands frá upphafi og ég hef alltaf litið upp til hans sem tónlistarmanns og fyrirmyndar og hann var mikið spilaður á mínu heimili.“

Á næstunni gæti dregið til tíðinda hjá Kristjáni og Svölu.

„Tónlist er stór hluti af daglegu lífi okkar beggja svo það er aldrei að vita nema þeir teinar okkar renni saman og við tökum upp á því að búa til tónlist saman.“

Kristján segist alltaf hafa þótt Svala Björgvins vera ein af bestu söngkonum landsins og að faðir hennar Björgvin Halldórsson hafi verið mikið spilaður á hans heimili á Húsavík. MYND/AÐSEND

Bæði jafn yndislega rugluð

Kristján segir fljótlegra að telja upp hvað þau Svala eigi ekki sameiginlegt heldur en það sem sameini þau.

„Við elskum bæði tónlist og erum með nákvæmlega sama tónlistarsmekk. Við elskum bíómyndir, tísku og hönnun. Við elskum að ferðast og lenda í ævintýrum saman. Við erum bæði svolítið mikið fyrir að taka skyndiákvarðanir og lifum mikið í núinu. Við erum með sama húmor. Við erum með sama viðhorf til lífsins og erum bæði jafn yndislega rugluð.“

Daglegt líf þeirra ákvarðast ekki af rútínu hefðbundins vinnudags.

„Dæmigerður dagur byrjar þannig að við vöknum klukkan níu við dásamlegt gelt úr litla loðboltanum okkar, henni Sósu. Svala vaknar hvern morgun og nær sér í ís-latte á kaffihúsinu í götunni okkar og því vakna ég oft einn og yfirgefinn. En þegar hún kemur til baka er ég búinn að búa til morgunmat sem er magnaður, þótt ég segi sjálfur frá; vanalega er það boost-leyniuppskrift sem hefur verið í þróun að fullkomnun í mörg ár. Við erum hvorugt í 9 til 5 vinnu og því fer það alveg eftir því hvað er í gangi hverju sinni hvernig dagurinn verður, en það er alltaf helvíti gaman hjá okkur,“ segir Kristján, sæll að hafa unnið ástir Svölu.

„Svala hefur breytt lífi mínu algerlega. Hún hefur bætt líf mitt í alla staði og gert mig hamingjusamari og að betri manni. Líf mitt var öðruvísi áður.“

Hann hefur að undanförnu birst á samfélagsmiðlum sem nýr áhrifavaldur.

„Ég er stundum spurður hvort ég sé að auglýsa fyrir 66°Norður, sem er ekki raunin og mér finnst persónulega fáránlegt því ég elska fötin þeirra, en ég er í samstarfi við frábær fyrirtæki, eins og Perform, Nicoland og Hárvörur.is.“

Framtíðin er með Svölu

Kristján varð 23 ára í fyrradag, miðvikudaginn 20. janúar.

„Ég er náttúrlega svo ungur að ég bað Svölu um að fara með mig í Húsdýragarðinn en hún tók það ekki í mál og planaði frábæran afmælisdag fyrir mig, frá morgni til kvölds,“ segir Kristján kátur og á sömuleiðis von á góðu í dag, enda bóndadagurinn.

„Já, ég ætla rétt að vona það. Það er eins gott að Svala lesi þetta viðtal svo hún gleymi ekki að dekra við manninn sinn,“ segir hann í glensi og lítur björtum augum fram á veginn.

„Framtíðin er hamingja, fjölskylda, heilsa, velgengni, vinirnir, ferðalög, og að sjálfsögðu allt þetta með henni Svölu minni.“

Fylgstu með Kristjáni á Instagram.