BÆKUR
Hinir smánuðu og svívirtu
★★★★★

Höfundur: Fjodor Dostojevskí
Þýðendur: Ingibjörg Haraldsdóttir og Gunnar Þorri Pétursson
Útgefandi: Forlagið
Blaðsíður:555


Ingibjörg Haraldsdóttir skáld vann afar mikilvægt starf með þýðingum sínum á verkum rússneska skáldjöfursins Fjodors Dostojevskí. Enginn bókaunnandi ætti að ganga í gegnum lífið án þess að lesa helstu verk hans og ber þá sérstaklega að nefna Glæp og refsingu og Karamazov-bræðurna sem eru með bestu skáldsögum sem skrifaðar hafa verið.

Ingibjörg var byrjuð að þýða Hina smánuðu og svívirtu en varð frá að hverfa vegna veikinda. Það kom í hlut Gunnars Þorra Péturssonar að ljúka við þýðinguna og hann ritar auk þess skýringar og eftirmála.

Hinir smánuðu og svívirtu kom fyrst út árið 1861. Aðalpersóna verksins er hinn ungi rithöfundur Vanja sem tekur að sér Nellý, kornunga stúlku. Vanja elskar Natöshu sem elskar Aljosha sem heillast hins vegar af Kötju. Faðir Aljosha, Valkovskí fursti, er illmenni, sem elskar auð og leggur sig fram við að leggja stein í götu flestra persóna sögunnar.

Verkið byrjar með hreint mögnuðum kafla um gamlan mann og hund hans þar sem umkomuleysi þeirra beggja er lýst og engu líkara er en að dauðinn sé með þeim í för. Svona skrifa bara sannir meistarar.

Engum tekst að lýsa ofsafengnum og mótsagnakenndum tilfinningum til jafns við Dostojevskí. Persónur hans eru iðulega í tilfinningalegu uppnámi, svo miklu að lesandinn á helst von á því að þær falli í yfirlið í miðri setningu. Hér er engin undantekning frá því.

Frásögnin einkennist ekki síst af löngum einræðum persóna sem útlista tilfinningar sínar, stundum af mikilli nákvæmni. Skapgerð þeirra er yfirleitt afar sveiflukennd og segja má að hugrenningar þeirra komi lesandanum iðulega á óvart.

Börn í neyð koma oft fyrir í skáldsögum Dostojevskí og umhyggja hans og samúð með þeim er greinileg. Hin unga Nellý er eitt þessara barna, þvermóðskufull og ofur tilfinningarík. Illmenni sögunnar, Valkovski, er síðan rannsóknarefni út af fyrir sig, en hann útskýrir vandlega hugmyndafræði sína sem byggist ekki síst á skeytingarleysi um örlög annarra og umhyggju um eigin hag.

Þjáning og göfgi eru umfjöllunarefni sem voru Dostojevskí alla tíð hugleikin. Hér er sannarlega nóg um þjáningar en göfgin verður ekki út undan, né heldur ástin. Líkt og hjá öðrum skáldsnillingi, Charles Dickens, er atburðarásin í skáldsögum Dostojevskís á köflum reyfarakennd, en síst skal kvartað undan því, lesturinn verður einfaldlega skemmtilegri fyrir vikið.

Það er sérlega ánægjulegt að fá þessa mögnuðu skáldsögu Dostojevskís á íslensku. Gunnar Þorri Pétursson skilar góðri þýðingu. Í eftirmála getur hann um ritröð Máls og menningar sem samanstóð af þýðingum á frábærum bókmenntaverkum, og kom út í rauðu bandi. Þar á meðal voru Dostojevskí-þýðingar Ingibjargar Haraldsdóttur. Nú eru breyttir tímar og lítið um að meistaraverk bókmenntanna komi út innbundin, oftast eru þau í kilju, eins og hér. Allt um það, einkar þakkarvert er að fá þessa bók í hendur. Hún á skilið að rata víða.

NIÐURSTAÐA: Tilfinningaþrungin og dramatísk skáldsaga um ást og þjáningu.  Persónur eru sérlega eftirminnilegar. Lesandinn hlýtur að heillast.