Enok hefur búið í Montpellier í Frakklandi frá fimm ára aldri. „Fjölskylda mín flutti út árið 2005 þegar faðir minn fór í MBA-nám. Ætlunin var upphaflega að flytja aftur til Íslands að því loknu. Foreldrar mínir eru bæði fædd og uppalin á Íslandi en móðir mín er hálf íslensk og hálf kabyle/alsírsk.“

Enok framleiddi fyrstu hönnunarlínuna sína í fyrstu sóttkvínni í Covid-19 faraldrinum og skemmst er frá því að segja að hún seldist upp á þremur dögum. „Ég fór varlega í byrjun og átti því bara 100 boli og 30 hettupeysur. En ég náði að selja upp línuna eingöngu með því að auglýsa í gegnum samfélagsmiðla.“ Enok heldur úti TikTok-síðu þar sem hann kallast @enokarn og Instagram-reikningi þar sem hann nefnist @enokmani og @flov3rboy. „Það kom mér skemmtilega á óvart hversu mörgum líkaði það sem ég var að gera og mér finnst ég hafa náð að snerta einhverja taug í fólki,“ segir Enok.

Með listina í blóðinu

Enok segist ekki hafa stundað nám í tísku, hönnun eða list en móðir hans, Louise St Djermoun, er starfandi myndlistakona. „Hún lærði Art Plastic í Sorbonne-háskóla í París og vinnur mikið með náttúruna í verkunum sínum. Mamma hefur alltaf hvatt mig og bræður mína til að þjálfa okkar listrænu hæfileika og má segja að við höfum fengið mjög listrænt uppeldi. Hún hefur alltaf verið mjög dugleg við að draga alla fjölskylduna á listasöfn og ég hef sjálfur teiknað mikið. Það má eiginlega segja að ég hafi lært hjá henni að sjá náttúruna sem listaverk.

Sjálfur stunda ég nám í Montpellier Buissness School. Námið nýtist auðvitað sem almenn viðskiptakunnátta sem er mikilvæg þegar maður er að starta sínu fyrsta fyrirtæki. Í náminu er ég með áherslu á markaðssetningu og hef aðeins getað nýtt mér digital marketing og social media fyrir merkið mitt.

Uppgötvaði nýja tækni

Frá því ég man eftir mér hef ég haft áhuga á tísku og það hefur í raun blundað lengi í mér að gera mitt eigið fatamerki. En smekkurinn hefur auðvitað þróast með árunum. Ég man til dæmis að þegar ég var yngri var ég á kafi í hjólabrettatískunni og gerði foreldra mína gráhærða á því að hafa mjög miklar skoðanir á því hverju ég vildi vera í,“ segir Enok.

Þegar Enok fór að hafa áhuga á að hanna og breyta fötum kenndi hann sjálfum sér að sauma og bródera, meðal annars með því að horfa á YouTube-myndbönd. „Ég var þá að fikta við að bródera eigin mótíf á boli frá japanska merkinu Uniqlo. Ég gerði þetta aðallega fyrir sjálfan mig og ætlaði ekki að selja neitt enda tók bróderingin allt of langan tíma til að þetta yrði nokkurn tíma arðbært. En ég fékk frábær viðbrögð og fólk var mjög hrifið af mótífunum. Ég var búinn að fá margar fyrirspurnir frá alls konar fólki sem sá bolina mína á Instagram og TikTok.

Svo kom fyrsta útgöngubannið 2020 vegna faraldursins og þökk sé TikTok, þá uppgötvaði ég prenttækni sem hvatti mig áfram til að láta drauminn verða að veruleika og hleypa af stokkunum fyrstu floVer*boy-línunni. Í fyrstu sóttkvínni hafði ég allt í einu fullt af lausum tíma og fann þá lausnina í strigaprenti (e. screen printing). Ég pantaði græjur og prófaði mig áfram með efni og liti þangað til ég var ánægður með niðurstöðuna. Í þessu ferli þá deildi ég reglulega því sem ég var að gera á Instagram og fann að áhuginn óx þangað til að ég taldi rétt að láta vaða. Ég hef svo í kjölfarið verið að fá mjög gott feedback frá mínum viðskiptavinum sem hvetur mig enn meira áfram.“

Hann segir Frakkland og fegurðina þar veita sér innblástur í hönnunina.

Fyrir hvað stendur floVer*boy og hvernig tengir þú við nafnið?

„Ég er fæddur á Valentínusardegi 14. febrúar, eða degi ástarinnar, svo vinir mínir hafa alltaf kallað mig LoverBoy. Það lá því beint við að ég leitaði að innblæstri í ástina. FloVer*boy er blanda af elskhuga (lover) og blómi (flower). Ég hef alltaf elskað blóm en finnst þreytt þessi klisja að blóm séu bara tengd við kvenleika. Ég vildi brjóta upp staðalmyndina og tengja saman blóm og strák. Upprunalega hugmyndin mín var reyndar „certified flower boy“ en Drake var á sama tíma að fara að gefa út plötu sem heitir „certified lover boy“ þannig að ég breytti nafninu.

Enok finnst þreytt klisjan um að blóm séu bara fyrir stelpur.

Í kjölfarið á fyrstu línunni komu svo fjölmargar fyrirspurnir um floVer*girl og er það nafnið á annarri vörulínunni og áframhald á floVer*boy-línunni. Þá sótti ég hugmyndir í skissu frá listamanninum Matisse. Með hverri nýrri línu hanna ég ný mótíf ásamt því að bjóða upp á nýja liti á fyrstu floVer*boy línunni. Ég byrjaði fyrst á ljósbláum, rauðum og bleikum og bætti svo við gulum, dökkbláum og túrkisbláum sem glóir í myrkri.

Ég er nú stoltur af að kynna þriðju línuna mína sem er komin út, og þá sérstaklega hettupeysurnar sem ég kalla Toi et Moi. Ég læt hverjum og einum það eftir að túlka fyrir sig. Hvort sem menn vilja þiggja eða gefa ást.“

Hvað veitir þér innblástur?

„Ég bý á frábærum stað í Suður- Frakklandi við Miðjarðarhafið og fæ minn innblástur úr náttúrunni, fólkinu í kringum mig, ástinni og lífinu.“

Bolirnir og peysurnar eru úr 100% hágæða bómull og Enok handprentar á hverja flík.

Gerir allt í höndunum

„Að alast upp kringum listamanninn hana móður mína fékk mig líka til að vilja mála allt sjálfur í stað þess að fara í gegnum fyrirtæki með fjöldaframleiðslu. Ég vinn því alla mína boli og hettupeysur sjálfur í höndunum. Ég sel eftir pöntunum og miða við að geta framleitt og sent frá mér innan 48 klukkustunda eftir að pöntun berst. Ég kaupi hágæða umhverfisvæna boli úr 100% lífrænni bómull sem ég handprenta á eftir pöntunum í litlu heimavinnustofunni minni. Það skiptir mig mjög miklu máli að senda frá mér góðar vörur sem eru jafnframt góðar fyrir náttúruna. Það tók mig smá tíma að finna framleiðanda sem bauð bæði snið og gæði sem ég vildi vinna með en það hófst á endanum.“

floVer*girl byggir á frægri skissu eftir Matisse.

Hvað heldur þú að það sé sem heillar fólk við hönnun þína?

„Ég held að fólk sé almennt hrifið af jákvæðum skilaboðum í stílhreinu mótífunum mínum. Ást og blóm snerta alla. Ég hef séð alls konar fólk í hönnuninni minni og svo líka fengið skilaboð og myndir frá vinum sem rekast á fólk í floVer*boy-bolum eða -peysum.

Frakkar eru eins og er stærsti kúnnahópurinn minn og Íslendingar eru í öðru sæti. En ég hef þó verið að fá pantanir víða að úr heiminum og aldurshópurinn er frá 10-90 ára. Ég hef hingað til aðallega verið að selja í gegnum vefsíðuna mína floverboy.com en er einnig að skoða aðrar leiðir. Ég er til dæmis aðeins að skoða hugmyndir eins og pop-up verslun en vil geta haldið verðinu góðu. Ég er þó alltaf opinn fyrir spennandi tækifærum.“

Toi et Moi línan byggir á smá tengingu við franska dúettinn Paradis og lagið þeirra Toi et Moi.

Er þetta eitthvað sem þú getur hugsað þér að gera til frambúðar?

„Já á meðan þetta gengur vel og ég hef gaman af því sem ég er að gera þá vil ég þróa þetta áfram. Á sama tíma held ég áfram í viðskiptanáminu sem opnar vonandi ný tækifæri og nýjar hugmyndir.“