Skáldsagan Sólrún er í litlu broti og þar með styttri en blaðsíðutalið bendir til. Stundum hefur heitið „nóvella“ verið notað um sögur sem eru mitt á milli smásögu og skáldsögu. Ekki rek ég kenningar um nóvellur hér. Augljóst er að vegna lengdarinnar verða þær að vera hnitmiðaðri en skáldsögur en draga jafnframt upp breiðari mynd en venjuleg smásaga.

Á yfirborðinu er Sólrún saga af konu sem strýkur af elliheimili og stefnir til fundar við gamlan elskhuga sem henni hefur ekki tekist að gleyma. Nú hugsar auðvitað margur um kvikmyndina Börn náttúrunnar og fleiri sögur sem fjalla um strok af elliheimili en bæði sögumaður og aðalpersóna víkja því frá sér og eru í fullum rétti til þess. Þemað er kunnuglegt en frásögnin sérkennileg.

Ástin og ellin

Sólrún nær sér í ástkonuna Birnu á elliheimilinu og þær laumast stöðugt hvor upp í til annarrar. Starfsfólkið amast við þessu en ekki er ljóst hvers vegna. Kannski þarf starfsfólk að vera stirfið og leiðinlegt í svona sögum. Það kemur sér vel fyrir söguþráðinn og byggir upp samúð með Sólrúnu þegar hún strýkur.

Ástarsambandið við Birnu á líklega stærstan þátt í því að blása glæðum að æskuástinni. Í Mývatnssveit býr elskhuginn Höskuldur, sem var fegurstur og bestur allra á vori lífsins og þangað leggur Sólrún leið sína. Eins og glöggir lesendur sjá þá eru hér ýmis frásagnarþemu. Sagan af uppreisn Sólrúnar, sem fyrirlítur gráma elliheimilisins og gerir uppreisn gegn lamandi kerfishyggju, á samleið með sögunni af leit hinnar öldruðu Sólrúnar að æskuástinni sem var öllu öðru heitari. Hún stingur af og ferðalagið er annars vegar raunsæislegt en hins vegar dulúðugt á rammíslenskan hátt. Sú andstæða rímar ágætlega við elliheimilið og ástina.

Yfirvaldið og einstaklingurinn

Þriðja samlokan í þessari sögubyggingu er svo veruleikaskyn Sólrúnar sjálfrar. Stundum leikur á tveimur tungum hvað er að gerast og hvað ekki. Þetta má þó ekki skilja þannig að sagan sé flókin og torræð. Hún rennur ljúflega en smám saman er mjög líklegt að ýmiss konar efi læðist að lesanda. Ein skemmtilegasta frásagnarbrellan í sögunni er sú hve oft sögupersónurnar tengjast hver annarri á einhvern hátt. Heimurinn er lítill, um leið og hann er gríðarlega stór.

Fólkið stendur með Sólrúnu á flótta hennar og kemur henni undan þegar þess þarf en yfirvöldin birtast Sólrúnu í hverri gátt ef svo mætti segja. Hið illa kerfi er „okkur“ fjandsamlegt og reynir að þrengja hag þeirra sem minna mega sín. Þannig virðist það löngum verða, bæði í bókmenntum og stjórnmálum. Flóknari viðhorf til þessara mála hefðu sennilega styrkt frásögnina.

Niðurstaða: Sólrún er bæði skemmtilegt og athyglisvert skáldverk. Frásögnin hefði líklega hagnast á því ef söguhöfundur hefði efast meira um kaldlyndi kerfisins og mátt ástarinnar.