Tón­listar­konan Markéta Irg­lova fagnar nú út­gáfu á þriðju breið­skífu sinni sem hefur hlotið nafnið „Lila“. Markétu kannast flestir Ís­lendingar við eftir þátt­töku hennar í söngva­keppninni fyrr á þessu ári, en hún flutti lagið „Mögu­legt“ eða „Possi­ble“ sem samið var af henni sjálfri. Einnig skráði Markéta sig í sögu­bækurnar árið 2008 þegar lag hennar „Falling Slowly“, sem hún samdi á­samt Glen Hansa­rd, hlaut Óskars­verða­laun sem besta frum­samda lagið. Hún var þá einungis ní­tján ára gömul og varð þar með yngsti hand­hafi verð­launanna frá upp­hafi.

Ástin sem yrkis­efni

Markéta segir að lögin á plötunni séu fyrst og fremst inn­blásin af ástinni en hún segir að hún upp­lifi ástina á sér­stakan hátt. „Ég er ný­farin að hugsa um ástina ekki sem til­finningu heldur frekar eins og veru,“ segir Markéta, sem segir það eitt að upp­lifa ástina á rómantískan hátt eða í gegnum fjöl­skyldu, „en annað er að upp­lifa ástina sem kraft í heiminum,” segir Markéta.

Markéta ásamt eiginmanni sínum Sturlu Mío Þórissyni og börnum sínum.
Mynd/Aðsend

Heimilið sem hljóð­ver

Hún og eigin­maður hennar, Sturla Míó Þóris­son, unnu saman að plötunni sem tekin var upp í Masterwork Sound hljóð­verinu sem þau sjálf byggðu.

„Maðurinn minn sá aðal­lega um smíðina á meðan ég sá um innan­húss­hönnun þess,“ segir Markéta og heldur á­fram: „Ég er mjög góð í að fara í búðir og finna fal­lega hluti á meðan hann er betri í að byggja hlutina,“ segir hún og hlær. „Við byggðum hljóð­verið með þá hug­sjón að hafa það heimilis­legt, en þannig lítur stór partur af stúdíóinu út eins og heimili,“ en Markéta og Sturla búa beint fyrir neðan hljóð­verið.

„Ég er ný­farin að hugsa um ástina ekki sem til­finningu heldur frekar eins og veru“

Lífið sem leikur

Nafn plötunnar „Lila“ kemur úr ind­versku, en Markéta segir að allar þrjár plötur hennar beri fjögurra stafa nafn úr mis­munandi tungu­málum. „Fyrsta nafnið var á pers­nesku, svo var það ís­lenska og svo ind­verska tungu­málið,“ en orðið Lila hafi marg­vís­lega merkingu í ind­versku. „Það fyrsta sem það stendur fyrir er leikur, á sama hátt og lífið er leikur,“ segir Markéta, en orðið standi einnig fyrir gáska­fullar til­viljanir sem Ind­verjar kalla „Lila“ augna­blik. Þar sem hlutirnir fara ekki alveg eins og maður ætlaði en koma þó vel út á endanum.

„Á endanum verður þetta allt eins og hlutirnir hafi verið skipu­lagðir af ein­hverjum, því allt smellur saman á fal­legan hátt,“ segir Markéta. „Annað sem ég tók eftir er að nafnið stendur fyrir fjólu­bláan lit á mörgum tungu­málum.

Litur plötunnar er fjólu­blár, en litur fyrstu plötunnar var rauður á meðan sú sem kom síðast var blá,“ segir hún.

„Svo er Lila einnig notað sem kven­kyns­nafn og á plötunni eru svo margar sögur af konum að ganga í gegnum lífið og upp­lifa ástina. Þannig fannst mér þetta passa við á svo margan hátt,“ segir hún.

Fjölmargir tónlistarmenn komu að gerð plötunnar, en hún var tekin upp á heimili Markétu og Sturlu.
Mynd/Samsett