Ýmsir nafn­togaðir ein­staklingar hafa flust bú­ferlum til Sel­foss undan­farin misseri. Einn af þeim er grín­goð­sögnin Sigur­jón Kjartans­son. Hann kveðst hæst­á­nægður með flutningana.

„Það var ástin,“ segir Sigur­jón, að­spurður hvað hafi dregið hann á Sel­foss.

Sigur­jón hefur áður búið á lands­byggðinni og unað því vel. Honum finnst gott að vera kominn aftur út fyrir skarkala höfuð­borgar­svæðisins: „Dá­sam­legt. Ég kann mjög vel við mig í þessum á­gæta bæ,“ segir Sigur­jón.

Gæti jafn­vel verið að það sé orðið á­kveðið stöðu­tákn að búa á Sel­fossi, þegar menn á borð við Sigur­jón og Guðna Ágústs­son búa þar?

„Það gæti bara vel verið það. Það má ekki gleyma því að mesti heims­borgar­bragurinn er í bæ sem þessum, því þetta er ekkert ó­líkt því að búa í grónu hverfi í New York til dæmis. Þar sem rakara­stofurnar hafa verið til frá fyrra stríði og svo fram­vegis. Sömu verslanirnar. Þetta er í rauninni heims­borgara­líf­stíllinn,“ segir Sigur­jón hæst­á­nægður.

Þá segist Sigur­jón hafa tekið upp á hænsna­rækt með kærustu sinni, þeim til dægra­styttingar. Hann segir það vera skemmti­lega til­breytingu og auk þess sé al­gengt að í­búar Sel­foss haldi hænur í garðinum sínum.

Fram á aðventuþriðjudagskvöld

Eins og al­þjóð veit er Sigur­jón annar grín­dúettsins Tví­höfða, á­samt vini sínum Jóni Gnarr. Þeir fé­lagar hafa tekið upp á ýmsu og nú í desember halda þeir Há­tíðar-og að­ventu­þriðju­dags­kvöld Tví­höfða:

„Ég get lofað því að þetta verður mjög há­tíð­legt. Það mun ýmis­legt koma á ó­vart og jafn­vel ein­hverjir leyni­gestir láta sjá sig. Þetta er alveg súper-trúper,“ segir Sigur­jón.

Og talandi um trúper, hvað er að frétta af Troopernum – hinum for­láta Isuzu Trooper jeppa Sigur­jóns sem hann lætur svo vel af?

„Ég er búinn að selja hann,“ segir Sigur­jón og ekki laust við að ör­lítil eftir­sjá geri vart við sig.

Hann svalar for­vitnis­þörf blaða­manns og greinir frá því hvers­konar bíl hann sé kominn á í staðinn: „Skoda Octa­viu, mjög gamlan og dá­lítið ryðgaðan,“ segir Sigur­jón glettinn.

Hann segir les­endur geta fræðst betur um af­drif Troopersins og Skoda kaupin í næsta hlað­varps­þætti Tví­höfða.

Því næst víkur hann sam­talinu aftur að Há­tíðar- og að­ventu­þriðju­dags­kvöldi Tví­höfa: „Það leggst mjög vel í okkur að­ventu-þriðju­dags­kvöldið 7. desember og miðarnir rjúka hrein­lega út. Það fer hver að verða síðastur.“

Að­spurður segist Sigur­jón ekki geta gefið neitt upp um komandi kvik­mynda- eða sjón­varps­þátta verk­efni: „Ég er bara að hugsa, eins og menn gera í þessum bransa. Ég hætti ekki fyrr en 1. desember og er í rauninni bara fyrst og fremst núna að vinna í að klára Ó­færð 3 sem er náttúru­lega komin í loftið en það er alltaf að­eins verið að nuddast í þáttunum sem á eftir koma. Verið að gera og græja, eins og menn segja,“ segir Sigur­jón.