Tilfinningar eru fyrir aumingja

Kamilla Einarsdóttir

Útgefandi: Veröld

Fjöldi síðna: 141

Skáldskapur er mikilvægur fyrir sálina og andann, til að hjálpa okkur að gleyma dagsins amstri um stund og týna okkur í öðrum heimum og tímum þar sem lífið rímar kannski að einhverju leyti við okkar. Hann er þó enn mikilvægara tæki til að greina samtímann og tíðarandann og mikilvægasta tannhjólið í þeirri vél er húmor og greiningarhæfni á eigið umhverfi, eins konar fjarsýnisgleraugu á það sem stendur fólki næst.

Kamilla Einarsdóttir hlaut mikla athygli og lof fyrir hina mjög svo skemmtilegu Kópavogskróniku sem kom út fyrir þremur árum, þar sem hún fjallaði um ástina og ástarsorgir í Kópavogi og nærsveitum. Í þessari bók er meiri áhersla á vináttuna og hina merkjanlegu togstreitu sem samtímafólk á í, við að reyna að samræma forskrifaðar hugmyndir um ást og ástarsambönd annars vegar og raunveruleikann sem litast af einmanaleika og stefnuleysi hins vegar.

Það má næstum heyra upphafsstefið í vinsælustu sjónvarpsþáttaröð allra tíma hljóma undir fyrsta kafla bókarinnar: Það sagði þér enginn að lífið yrði svona … nema bara í óþekkjanlegri dauðarokksútgáfu því söguhetjan Halla og vinir hennar myndu aldrei láta sjá sig vitna í Friends nema dauð, þó þau hafi í laumi horft á allar seríurnar, oft.

Bókin hverfist um þá hugmynd Höllu að stofna þungarokkshljómsveit með vinum sínum til að koma í veg fyrir endalausar umræður um viðhald fasteigna, sem henni finnst vera farnar að einkenna vinahópinn. Bókin fjallar þó minnst um hljómsveitina heldur hvernig þessir ólíku einstaklingar á for­miðaldrasíðæskuskeiði, sem stopul skólaganga leiddi saman úr öllum áttum, fóta sig í heimi þar sem tilfinningar eru fyrir aumingja en eru samt alls staðar að þvælast og gera fólki erfitt fyrir.

Halla er eins konar nútíma Bridget Jones og lýsingar á raunum hennar í ástamálum eru jafn fyndnar og raunveruleiki þeirra er sorglegur, skorturinn á raunverulegum samskiptum með markmið í skilaboðaflæmi netveruleikans þar sem nándin á heima, á meðan kynlíf er stundað á ópersónulegum nótum inni á klósetti.

Söguþráðurinn sjálfur er þannig séð ekkert endilega neitt markverð smíð, svolítið sundurlaus og út um allt eins og líf Höllu, en það skiptir bara engu máli því bókin er svo fyndin, mannlýsingar svo góðar og tíðarandavísanir svo markvissar og gegnumgangandi. Og í gegnum fyndnina og tíðarandann má finna sársauka sem er sammannlegur og á við á öllum tímum: Óttinn við einmanaleikann og tilgangsleysi allra hluta. n

Niðurstaða: Vel skrifuð og einstaklega fyndin samtímalýsing um nándina á netinu og einmanaleikann í raunheimum, vináttu og dren.