Leikararnir Tom Holland og Zendaya eru á fullu að kynna nýju Spider-Man myndina, sem verður frumsýnd 17. desember. Um síðustu helgi mættu þau saman í myndatöku í London sem var hluti af kynningu myndarinnar og gáfu fjölmiðlum um leið smá innsýn í samband sitt, sem þau héldu lengi leyndu.

Zendaya mætti í fötum frá Alexander McQueen, sem voru greinilega með vísun í vefi Köngulóarmannsins, en hún er vön að vera í klæðnaði sem hefur skírskotun til kvikmyndanna sem hún er að kynna. Tom Holland var sjálfur í leðurjakka, hnepptri skyrtu og svörtum buxum frá Celine, en Law Roach er stílisti þeirra beggja.

Parið geislaði af gleði og þau áttu erfitt með að slíta augun hvort af öðru. Þau röbbuðu við fjölmiðla um alla athyglina sem samband þeirra fær og voru sammála um að vera ekki sérlega hrifin af henni.

Föt Zendayu, sem eru eftir hönnuðinn Alexander McQueen, voru greinileg vísun í vefi Köngulóarmannsins, en Tom Holland var í fatnaði frá Celine. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Í nóvember sögðu þau við tískutímaritið GQ að það hefði ekki verið ætlunin að greina frá sambandi þeirra opinberlega, en upp komst um það í júlí þegar myndir náðust af þeim að kyssast. Zendaya sagði að áhugi fólks á sambandinu væri „frekar skrítinn og furðulegur og ruglandi og óþægilegur“ og Holland sagði um kossaflensið sem náðist á mynd að einn af ókostum frægðarinnar væri að geta ekki haft stjórn á því hvað þau gera opinbert. Þeim fannst eins og þau hefðu verið rænd einkalífinu.

Hjálpaði Holland að höndla frægðina

Þau töluðu líka um stuðninginn sem þau hafa veitt hvort öðru við gerð þríleiksins um Köngulóarmanninn. Holland byrjaði á því að slá Zendayu gullhamra og tala um hvað hún liti fallega út, eins og alltaf, og að hún væri vitur eins og ugla. Zendaya sagði sjálf að hún væri gömul sál og fólk kallaði hana oft ömmu, sem henni þætti ekkert slæmt.

Holland sagði líka að stuðningur og félagsskapur Zendayu í gegnum gerð kvikmyndanna um Spider-Man hefði skipt hann miklu máli, ekki síst þar sem þau voru að miklu leyti að ganga í gegnum það sama. Hann sagði líka að það hefði gjörsamlega breytt lífi hans að verða Köngulóarmaðurinn, því persónan er svo vel þekkt um allan heim og það hefði verið ótrúlega gagnlegt að geta fengið ráð og aðstoð frá Zendayu, sem hefur sjálf langa reynslu af því að vera fræg, en hún sló fyrst í gegn á Disney-sjónvarpsstöðinni.

Zendaya tók undir mikilvægi þess að veita hvort öðru stuðning og vera til staðar fyrir hvort annað þegar eitthvað bjátar á. Hún sagðist líka hafa haft samkennd með Holland, sem varð ofurfrægur á mjög skömmum tíma, á meðan hún bjó að því að verða fræg hægt og rólega. Hún hjálpaði honum því að fóta sig á frægðarbrautinni.