Ég heiti Sylvía Dögg Halldórsdóttir / Lovetank og er búningahönnuður og listmálari,“ segir Sylvía Dögg. „Ég á og rek fyrirtækið Lovetank þar sem ég hanna búninga fyrir bíómyndir og sjónvarp. Einnig mála ég myndir þegar ég „má vera að“ sem ég sel í Gallerí List í Skipholti. Hér bý ég með leikstjóranum Sigga Kjartani, kærasta mínum, ásamt dóttur okkar og syni mínum úr fyrra sambandi.“

Afslappað andrúmsloft

„Ég ólst upp í höfuðborg Austurlands, Reyðarfirði,“ segir Sylvía sem hefur búið víða. Eftir að hafa lokið myndlistarnámi í Hollandi 2007 fluttist hún til London um tíma og svo aftur til Íslands. „Áður en ég flutti hingað bjó ég í risíbúð á Bergþórugötu og Siggi Kjartan flutti til mín frá Los Angeles en við erum búin að búa saman hér í rúm tvö ár.“

Sylvía Dögg segir það mikla gæfu að fá að starfa í kvikmyndabransanum með hæfileikaríku listafólki.

Heimili Sylvíu einkennist af mikilli birtu og opnum rýmum. „Ég myndi lýsa andrúmsloftinu á heimilinu sem hlýju, huggulegu og afslöppuðu, eða þannig upplifi ég það.“

Þá skartar íbúðin einstaklega tignarlegum og fallegum bogaglugga en bæði húsið og glugginn eiga sér áhugaverða sögu.

„Húsið sem við búum í er teiknað af Jörundi Pálssyni arkitekt/listmálara fyrir Loga Einarsson hæstaréttardómara, og var byggt árið 1948. Jón Ásgeirsson tónskáld bjó hér á árum áður og leyfi ég mér að dreyma um að hann hafi samið lagið við Maístjörnuna hérna við þennan fallega bogaglugga þar sem mér skilst að flygillinn hans hafi staðið.“

Glaðværð og gersemar

Sylvía segir þau ekki hafa þurft að standa í miklum framkvæmdum. „Fyrri eigendur voru mikið smekkfólk og breyttu íbúðinni mikið og í núverandi mynd, þau létu færa til eldhúsið svo eitthvað sé nefnt. Við höfum meira verið að mála og gera minni háttar andlitslyftingar.“

Það er þó sitthvað á teikniborðinu. „Við ætlum að taka baðherbergið í gegn, taka baðkarið út og setja þess í stað sturtu og fá auka gólfpláss til að geta tekið sporið með tannburstann.“

Sylvía Dögg segir eldhúsið og svefnherbergið vera í miklu eftirlæti.

Athygli vekur að heimilið hefur að geyma mikinn fjölda tilkomumikilla listaverka sem koma úr ýmsum áttum. „Ég málaði mikið af myndunum sem hér eru en einnig hanga hér myndir eftir Ramon Maiden, Dan Hillier, Ara Magg, Árna Jónsson og Hörpu Finnsdóttur sem eru mér afar kærar. Einnig erum við með listaverk frá Ásu Dýradóttur, Diana Roig og Lukku Sigurðardóttur.“

Það stendur ekki á svörum þegar Sylvía er spurð að því hver sé uppáhaldsstaðurinn hennar í íbúðinni. „Uppáhaldsstaðurinn minn er svefnherbergið og eldhúsið.“

Þá hefur hún mikið dálæti á stofuprýðinni, stórbrotnum spegli. „Uppáhaldshluturinn minn er sjálfsagt þessi fallegi Reflections Copenhagen spegill sem ég lét eftir mér úr Snúrunni. Það er algert þrot að þrífa hann en hann er ó svo þess virði. Hann veitir mér mikla óútskýrða gleði í hvert skipti sem ég horfi á hann og hvernig hann leikur og dansar með dagsbirtu og ljós.“

Heilluð af hæfileikum

Þrátt fyrir að íbúðin sé full af fallegum munum og listaverkum segir Sylvía það ekki vera meðvitað ákvarðanaferli. „Ég safna aðallega fallegum fötum, skóm og minningum. Ég er ekki að safna neinu sérstöku hvað hluti varðar en finnst mjög gaman að hafa fallega hluti í kringum mig. Þeir safnast saman hægt og rólega með tíð og tíma.“

Í opnu borðstofurýminu gefur að líta ægifagurt listaverk eftir Lovetank.

Það er þó ákveðinn hlutur á óskalistanum sem hún óttast að finna ekki í bráð. „Ég er með á heilanum að eignast nýjan sófa. Mig langar í stóran fallegan sófa sem faðmar mig og kostar ekki handlegg. Sá sófi virðist ekki vera til.“

Sylvía segist fyrst og fremst sækja innblástur í sköpunar- og snilligáfu samstarfsfólks síns og veraldanna sem þau gæða lífi í gegnum leikmyndir og tökustaði. Það sé oft töfrum líkast. „Ég sæki ekki sérstaklega innblástur hvað heimilið varðar en verð óhjákvæmilega fyrir áhrifum frá því mikla listafólki sem ég vinn með í kvikmyndabransanum. Það eru mikil forréttindi að vera umkringd hæfileikaríku fólki daglega í vinnu og er ég þess aðnjótandi að sjá þar falleg kvikmyndasett og einstaka hluti og það er smitandi.“

Hægt er að fylgjast með Sylvíu og hennar verkefnum á heimasíðunni lovetank.is og á Instagram undir SYLVIA/LOVETANK.

Herbergi dóttur Sylvíu, er hlýlegt og fyllt fallegum húsgögnum og dóti.