„Hugmyndin að myndbandinu er að miklu leyti innblásin af því sama og texti lagsins spratt upp úr, sem var vanlíðan í sambandi og sterk löngun til að breyta aðstæðum sínum,“ segir Helena.

Söngkonan freistar þess nú í myndbandinu að fanga sömu tilfinningar og hún hafði áður fært í orð og sungið, við undirleik félaga sinna, Odds Mar Árnasonar gítarleikara og Þórgnýs Einars Albertssonar, bassaleikara, sem samdi hljóðfærahluta lagsins.

Hægagangur í hröðum heimi

In Between var önnur smáskífan af væntanlegri plötu Tragically Un­known en tónlistarmyndbandið sem dettur inn á YouTube á hádegi í dag er það fyrsta sem hljómsveitin sendir frá sér.

Dagur Leó Berndsen leikstýrði myndbandinu, sá um upptökur og klippingu, en þar er Helena sjálf í aðalhlutverki á móti Ingvari Erni Arngeirssyni auk fjölda aukaleikara.

Helena segist strax hafa séð sjálfa sig fyrir sér í hægagangi, eða slowmotion, á meðan lífið þýtur hjá og þau Dagur unnu þá grunnhugmynd áfram í myndbandinu. „Ég hugsaði strax um að finnast man vera í „slo-mo“ og að lífið haldi áfram á blússandi ferð í kringum man en að ég standi enn á sama stað,“ segir Helena. „Dagur kom svo sterkur inn í verkefnið og þróaði þessa hugmynd áfram í það sem hún er í dag.“

Algjör snilld

Oddur gítarleikari segir það hafa verið ákveðna upplifun að fylgjast með Helenu og Degi stilla saman myndræna strengi sína. „Það var frekar merkilegt að hlusta á þau tala saman um þetta þar sem þau virtust skilja hvort annað fullkomlega. Þannig að það var rosalega mikill „dreamteam“ fílingur í því að fylgjast með þeim.“

Þórgnýr tekur undir þetta, hæstánægður með útkomuna, enda lagið honum hjartfólgið. „Það var algjör snilld að vinna þetta verkefni. Bæði af því Helena og Dagur höfðu skýra og góða sýn fyrir myndbandið og svo einfaldlega af því mér þykir svo rosalega vænt um þetta lag,“ segir bassaleikarinn, sem boðar margvíslegan fögnuð í þessum mánuði.

„Svo er meira af góðu stöffi á leiðinni. Þetta myndband er fyrsti kaflinn í afar stórum októbermánuði þar sem von er á nýju lagi, öðru myndbandi og svo heilli plötu. Plötu ársins, mögulega aldarinnar.“

Fjörugir föstudagar

Breiðskífan Odes… er sú fyrsta frá Tragically Unknown, en Tónskáldasjóður RÚV og STEFs styrkti upptöku og vinnslu plötunnar. Hljómsveitin hefur þegar gefið út þrjár smáskífur af því sem koma skal; Villain Origin Story, In Between og Worthy of Her Love. Fjórða og síðasta smáskífan, Uprooted, kemur síðan út föstudaginn 14. október ásamt tónlistarmyndbandi.

Hljómsveitin heldur sig við föstudagana og Odes… kemur út 28. október, en öllu verður tjaldað til kvöldið áður, 27. október, á Lemmy við Austurstræti, þar sem tónlist Tragically Unknown mun óma, en hún þykir draga nokkurn dám af hinum ýmsu rokksveitum sem voru upp á sitt besta um aldamótin auk þeirra popppönksveita sem fylgdu í kjölfarið. Til dæmis Cranberries, Pixies, Blink-182 og Paramore.

Hægt er að fylgjast með Tragically Unknown á Instagram og Facebook undir /tragicallyunknown.