Hjónaband þeirra hefur blómstrað og gefið af sér þrjú uppkomin börn, tengdabörn og eitt barnabarn sem þau eiga traust og nærandi samband við og hefur gefið þeim mikið. Gunnar er sérfræðingur hjá menntamálaráðuneytinu og Soffía er forstöðumaður menningarmála í Kópavogi, þar sem þau starfa bæði í menningarmálum sem þau hafa brennandi ástríðu fyrir.

Soffía og Gunnar kynntust í gegnum bréfaskriftir þegar þau bjuggu sitt í hvoru landinu og þau geyma enn ástarbréfin.

Kynntust í gegnum bréfaskriftir

Soffía og Gunnar muna vel eftir þeirri stundu sem þau hittust í fyrsta sinn og má segja að ástin hafi strax byrjað að blómstra.

„Við kynntumst í Íslendingapartíi í London, náðum vel saman þar og eiginlega bara æ síðan. Ég var að heimsækja vinkonu mína í London og Gunnar var við nám í Cambridge. Við þekktumst ekki áður en áttum stefnumót í London áður en ég fór heim. Við ákváðum í raun ekki hvort við ætluðum að hittast aftur en úr varð að við skiptumst á heimilisföngum þannig að við gætum skrifast á. Og það má segja að þannig höfum við kynnst, í gegnum bréfaskriftir, sem hljómar auðvitað í dag eins og aftan úr grárri forneskju, þó það séu bara rúmlega 30 ár síðan. En þá var hvorki internet né tölvupóstur og utanlandssímtöl rándýr. Við leyfðum okkur þann munað að heyrast í síma einu sinni í viku, á sunnudagskvöldum, sem maður beið eftir í ofvæni. Þegar Gunnar flutti aftur heim að námi loknu fórum við að búa en höfðum þá hist tvisvar til þrisvar sinnum í Englandi eða hér heima. Svona eftir á að hyggja var þetta kannski nokkuð bratt, en hér erum við og höfum verið saman allar götur síðan. Búið á nokkrum stöðum en þó lengst af á Seltjarnarnesi þar sem börnin okkar þrjú eru fædd og uppalin,“ segir Soffía dreymin á svip.

Ferðalög innanlands sem utan er sameiginlegt áhugamál hjónanna og börnin njóta þess að ferðast með þeim.

Menning og listir sameina þau

Hvert er leyndarmálið á bak við farsælt og langt hjónaband?

„Ætli það sé ekki bara að gera sér ekki of háar væntingar um að allt breytist með hjónabandi og láta sér líða vel saman. Heimilislífið okkar er frekar hefðbundið. Við erum mjög heimakær en eigum þó sameiginlegt að vera frekar ævintýragjörn og afar ferðaglöð og reynum að heimsækja framandi staði á milli þess sem við förum í hefðbundnar borgarferðir. Við höfum brennandi áhuga á listum og menningu og það hefur sameinað okkar líf og smitað börnin okkar svo við eigum margt sameiginlegt. Við höfum líka mikinn áhuga á hjólreiðum og höfum farið tvö og með börnunum okkar í nokkrar ferðir erlendis sem eru algjörlega ógleymanlegar,“ segja þau Gunnar og Soffía og horfa hugfangin á hvort annað.

„Stundum er sagt að ólíkir einstaklingar eigi vel saman í hjónabandi og ef sú kenning er á rökum reist þá myndum við eflaust falla undir hana.“

Soffía segir að Gunnar sé rólegur og yfirvegaður á meðan hún kunni betur við sig á ferðinni og með mörg járn í eldinum.

„Gott og traust samband við börnin okkar og tengdabörn er líka einstaklega nærandi fyrir okkar samband og ég þekki fátt jafnskemmtilegt fólk og börnin okkar og tengdabörn, enda reynum við að verja miklum tíma saman og ferðast saman eins oft og við komum því við. Svo bættist fyrsta afa- og ömmubarnið í hópinn á árinu, sem við erum himinlifandi yfir,“ segir Soffía.

Stóri dagurinn þeirra var 11. júlí 1992 og 25 árum síðar fögnuðu þau silfurbrúðkaupsafmælinu með því að fara í sama klæðnað og þau giftu sig í. Takið eftir brúðarkjólnum hennar Soffíu, smellpassar 25 árum síðar.

Allt sem einkennir gott brúðkaup

Gunnar og Soffía segjast muna vel eftir stóra deginum og segja hann ógleymanlegan.

„Við vorum gefin saman í Seltjarnarneskirkju og var veislan haldin í Vesturbænum hjá föður Gunnars og stjúpmóður, þar sem borðin svignuðu undan veisluföngum,“ segir Soffía.

Gunnar bætir því við að vinir Soffíu úr Óperukórnum hafi sungið í kirkjunni og í veislunni, sem setti mjög persónulegan svip á allt, auk þess sem frændi Soffíu, Karl Matthíasson, hafi gefið þau saman en þau Soffía eru bræðrabörn.

„Það var erfitt að ná niður brosinu þegar við lögðumst á koddann eftir þennan frábæra dag sem fór fram úr okkar björtustu vonum með hjálp okkar frábæru fjölskyldu og vina. Við fluttum píanóið okkar á veislustað og vorum með frábæran píanóleikara allan tímann, sem skipti okkur miklu máli og setti sterkan svip á veisluna. Tónlist, söngur, dans og allt sem einkennir gott brúðkaup,“ segir Soffía með bros á vör.

Gunnar og Soffía halda ávallt upp á daginn, brúðkaupsafmælið sitt, og njóta þess að búa til nýjar minningar.

„Við reynum alltaf að gera eitthvað til tilbreytingar. Ég held að við höfum aldrei gleymt brúðkaupsdeginum, en oft höfum við verið á einhverju flakki á þessum árstíma þannig að það hefur komið sér vel að gera sér dagamun í nýju umhverfi.“

Boðskortið í brúðkaup Soffíu og Gunnars sumarið 1992.

Þegar silfurbrúðkaupsdaginn bar upp fyrir liðlega fimm árum fannst þeim tilefni til að fagna rækilega.

„Við vorum bæði mjög sammála um að það væri ærin ástæða til að halda upp á silfurbrúðkaupsafmælið okkar. Við buðum hellingi af fólki sem við höfum verið samferða í gegnum lífið og héldum veislu með pompi og prakt. Á þessum tíma vorum við líka nýflutt í rúmgott hús með stórum palli og fannst tilvalið að fagna silfurbrúðkaupinu og nýja heimilinu í góðra vina og fjölskyldu hópi. Þetta var frábær dagur og veðrið stórkostlegt. Enda held ég að það sé alltaf gott veður 11. júlí, ef út í það er farið,“ segir Soffía.

Hvernig ætlið þið að fagna 30 ára brúðkaupsafmælinu?

„Við munum klárlega gera okkur dagamun, en það verður ekki með sama móti og á silfurbrúðkaupinu. Fram undan er útskriftarveisla og framkvæmdir þannig að við höfum þetta hófstilltara í þetta sinn,“ segja þau hjónin.

„Við fengum heilræðavísu eftir Steingrím Thorsteinsson í brúðarkorti sem alltaf er gott að rifja upp þegar á reynir og okkur langar að deila með ungum brúðhjónum.“

Undu sólar ástbros við

en ef nokkuð syrtir,

hafðu þreyju, þol og bið

þar til aftur birtir.