Steinunn Ás­munds­dóttir hefur sent frá sér nýja skáld­sögu sem ber heitið Ástar­saga. Bókin fjallar um unga Reykja­víkur­stúlku og franskan frétta­ljós­myndara sem kynnast og verða ást­fangin í að­draganda fundar Ron­alds Reagan Banda­ríkja­for­seta og Mik­haí­ls Gor­bat­sjev, leið­toga Sovét­ríkjanna, í Höfða haustið 1986.

Steinunn segir inn­blásturinn að sögunni hafa komið frá fregnum um vaxandi stirð­leika á milli Vestur­veldanna og Rúss­lands og á­huga hennar á kalda stríðinu en hún var sjálf tví­tug og bú­sett í Reykja­vík þegar leið­toga­fundur Reagans og Gor­bat­sjevs átti sér stað.

„Um­stangið við hann fór ekki fram hjá neinum. Það var gríðar­legt og á sinn hátt þrek­virki. Stjórn­völd höfðu tíu daga til að undir­búa borgina fyrir komu Reagans og Gor­bat­sjov sem ætluðu fund sinn sem undir­búning fyrir eigin­legar af­vopnunar­við­ræður árið eftir. Allt í einu höfðu 800 milljónir manna augu á sjón­varps­út­sendingum frá Ís­landi og hér voru næstum þúsund fjöl­miðla­menn alls staðar að úr heiminum, auk fjöl­menns fylgdar­liðs leið­toganna. Að ó­gleymdri Raisu Gor­bachevu sem allir elskuðu.

Borgin fór hliðina, eins og nærri má geta, grá­mygla daganna vék um stund og þjóðin tjaldaði öllu til sem hún átti best. Sumt af þessu var hrylli­lega fyndið svona eftir á að hyggja. Ég skemmti mér við að draga það fram í Ástar­sögu. Svo gerðust þarna ýmis ævin­týr í öllu havaríinu,“ segir Steinunn.

Hún bætir því við að þarna í októ­ber 1986 hafi hún og margt fólk af hennar kyn­slóð fengið gleggri sýn á heims­málin.

„Heimurinn stækkaði til muna, óra­langt út fyrir ís­lenskan raun­veru­leika og líf manns sjálfs minnkaði kannski að sama skapi sem því nam, sem af spruttu ýmsar til­vistar­spurningar. Þetta um­stang allt og bram­bolt hafði því mikil per­sónu­leg á­hrif á mig og mína kreðsu. Ástar­saga er byggð á grunni þessa alls og skáld­skapurinn látinn fylla í eyðurnar, eins og vera ber.“

Ástar­saga er gefin út á raf­bók og hljóð­bók og er að­gengi­leg á vef­síðu höfundarins Yrkir.is.

Bókin kemur út á hlóð- og raf­bók, finnurðu fyrir auknum á­huga les­enda á hljóð­bókum?

„Það er nú svo merki­legt að þrátt fyrir að mjög hækkandi prent­kostnaður hafi komið í veg fyrir að bókin yrði prentuð, að svo stöddu í það minnsta, þá hefur hljóð­bókin, sem ég las sjálf inn í stúdíói, selst og dreifst miklu hraðar en prentuð bók hefði nokkurn tímann gert. Raf­bókin hefur einnig gengið vel út og þeir sem geta ekki nýtt sér þessi tvo form sögunnar hafa getað fengið hana sem um­brotið pdf-skjal. Hljóð­bókin er æ sterkari miðill, ég tala nú ekki um ef höfundur stígur sjálfur þar á stokk með sitt skáld­verk sem er auð­vitað per­sónu­legra fyrir vikið. Því hefur þessi raf­ræna út­gáfu­leið gefist vel, ekki síður en ef um prentaða bók væri að ræða.“

Ástarsaga er gefin út bæði á hljóðbók og rafbók.
Mynd/Aðsend