Bók Júlíu Margrétar heitir Guð leitar að Salóme. Salóme týnir kettinum sínum og skrifar bréf á Kringlu­kránni þar sem hún opinberar sig í fyrsta sinn og leitar skilnings á fjölskyldusögunni og ástinni. „Þetta er ástarsaga og smábæjarharmleikur þriggja kynslóða á Akranesi. Hún inniheldur tilfinningar, húmor, draugagang og ljóðrænu og gerist að mestu um aldamótin 2000 þegar allir voru með tölvudýr og Húbba búbba í Kringlunni,“ segir Júlía Margrét.

Bók Kamillu ber hinn hressilega titil Tilfinningar eru fyrir aumingja. Aðalpersónan er Halla sem fær vini sína til að stofna með sér metalband. Á sama tíma geisa stormar í einkalífi hennar. „Ég hugsa bókina sem óð til vináttunnar. Þetta er ekki ástarsaga enda hafa sambönd aldrei gagnast neinum. Ég er fjörutíu og tveggja ára og er að sjá vini mína á þriðja skilnaði,“ segir Kamilla.

Nóg til að tala um

Þær segja bækurnar tvær vera ólíkar að efni og efnistökum. „Júlía er svo ljóðræn, blíð og einlæg,“ segir Kamilla. „Kamilla getur líka verið viðkvæm. Við tölum mikið saman um tilfinningar, þótt hún vilji ekki gangast við því,“ segir Júlía Margrét. Kamilla bætir við: „Ég held að Júlía sé miklu meiri töffari en ég því hún þorir að vera opin með það hvað hún er viðkvæm.“

Þær segjast ekki lesa yfir hvor fyrir aðra. „Við höldum þessu aðskildu, en ég tala mikið við Júlíu og spyr hana hvernig ég geti látið eitthvað ganga upp og líka varðandi íslenskuna því þar er hún betri en ég,“ segir Kamilla. „Við segjum hvor annarri hverju við erum að vinna í en erum báðar þannig að við viljum láta efnið gerjast í rólegheitum hjá okkur,“ segir Júlía Margrét. „Við höfum líka nóg annað að tala um.“

Gaman að fá gullmiða

Foreldrar þeirra, Einar Kárason rithöfundur og Hildur Baldursdóttir bókasafnsfræðingur, lesa handrit þeirra ekki yfir. „Ef ég fengi að ráða myndu þau heldur ekki lesa bækurnar okkar,“ segir Kamilla og Júlía Margrét segir: „Það er mjög vandræðalegt að koma heim og sjá að mamma og pabbi eru að glugga í bókina manns.“

Þær systur segja enga samkeppni ríkja þeirra á milli. „Það væri góð saga en svo er alls ekki. Við ætlum að eiga þann ríg inni, þá hringjum við í þig!“ segir Kamilla.

Bók Kamillu er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, spurð hvernig tilfinning það sé segir hún: „Það er skrýtið og óvænt. Ég veit ekki hvaða áhrif það hefur. Það er allavega gaman að fá gullmiða á bókina. Þegar ég fer í ríkið vel ég alltaf vín með gullmiða en svo stendur kannski á flöskunni: Besta vínið í bláum flöskum í nágrenni Stuttgart.“