Bókin er samstarfsverkefni sex vinsælla matarbloggara sem leggja til vinsælustu uppskriftirnar sínar. Hver og einn bloggari er með sitt sérsvið og bókin inniheldur því afar fjölbreyttar uppskriftir frá þessum frábæru konum. Allt frá gómsætum eftirréttum og kökum til klassískra rétta, heilsurétta og einfaldra hversdagsrétta. Bókin inniheldur 120 uppskriftir og ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi.


Berglind Hreiðarsdóttir heldur úti heimasíðunni www.gotteri.is sem allir kökuaðdáendur ættu að kannast vel við enda ótrúlega fjölbreytt úrval af kökum þar að finna af öllum stærðum og gerðum. Berglind man ekki eftir sér öðruvísi en að vera að baka, skreyta kökur og brasa í eldhúsinu. Nú hafa dæturnar þrjár smitast af þessum áhuga og þær elska að dúllast saman í eldhúsinu og auðvitað er pabbinn duglegur í uppvaskinu og smakkinu svo það er oft góð stemmning í eldhúsinu.

Berglind Hreiðarsdóttir heldur úti heimasíðunni gotteri.is þar sem finna má fjölbreytt úrval af kökum af öllum stærðum og gerðum.

Berglind er dugleg að setja inn skemmtilegar uppskriftir og veisluhugmyndir á heimasíðuna sína ásamt því að bjóða reglulega upp á námskeið í kökuskreytingum. Hún hefur farið á ótal kökuskreytinga námskeið bæði hér heima og erlendis og finnst gaman að miðla reynslu sinni til annarra gegnum bloggið og námskeiðin sín.

Þegar gotterí, kökuskreytingar eða matseld eru annars vegar eru möguleikarnir óendanlegir segir Berglind. Hún fær sífellt nýjar hugmyndir og er óskalistinn ætíð lengri en það sem hún nær að framkvæma þó svo sumir vilji meina að hún hafi fleiri klukkustundir í sólarhringnum en við hin. Í nýju matreiðslubókinni Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum gefur Berglind okkur uppáhalds uppskriftirnar sínar sem hafa náð miklum vinsældum. Uppskriftin sem við birtum hér er henni líka hjartfólgin.

Uppskriftin af ástarhringnum kemur frá ömmu Berglindar.

Ástarhringur

„Þessa köku útbjó elsku amma Guðrún nánast fyrir hverja heimsókn frá því að ég man eftir mér. Það má því segja að ég hafi borðað aðeins fleiri en eina eða tvær sneiðar af henni í gegnum tíðina. Eftir að amma dó er uppskriftabókin hennar mér afar kær og geri ég ömmupönnsur, jólaköku, marmaraköku og ástarhring mjög reglulega og hugsa til hennar um leið,“ segir Berglind.

Kakan

250 g smjör við stofuhita

250 g sykur

250 g hveiti

1 tsk lyftiduft

4 egg (aðskilin)

Hitið ofninn í 175°C.

Hrærið saman smjöri, sykri, hveiti og lyftidufti.

Blandið rauðunum saman við, einni í einu og skafið niður á milli.

Leggið blönduna til hliðar á meðan þið stífþeytið eggjahvíturnar.

Blandið stífþeyttum eggjahvítum saman við blönduna með sleif.

Setjið í vel smurt hringlaga form og bakið í um 40-60 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út (bökunartími fer eftir þykkt hringsins, sem bakað er í og ef um stórt/breiðara form en á myndinni er að ræða, er gott að gera 1 ½ uppskrift).

Kremið

2 dl rjómi

120 g smjör

1 tsk vanilludropar

50 g sykur

2 msk sýróp

Öll innihaldsefnin sett í pott og suðan látin koma upp.

Lækkað í meðalháan hita og hrært stanslaust í þar til þykknar (um 10 mínútur).

Kælið örlitla stund og penslið/smyrjið á kökuna.

Gott er að pensla fyrst þunnu lagi á alla kökuna meðan karamellan er enn heit. Síðan þegar búið er að þekja kökuna alla má setja restina yfir og leyfa karamellunni að leka aðeins niður með hliðunum.