Dans

Rómeó og Júlía

Borgarleikhúsið

Danshöfundar og listrænir stjórnendur: Erna Ómarsdóttir og Halla Ólafsdóttir

Tónlist: Sergei Prokofiev, Skúli Sverrisson – Watching Water

Leikmynd: Chrisander Brun

Leikmunir: Erna Ómarsdóttir, Ernst Backman, Halla Ólafsdóttir

Búningar: Karen Briem og Sunneva Ása Weisshappel

Hljóð: Baldvin Þór Magnússon

Ljós: Fjölnir Gíslason

Dansarar: Ásgeir H. Magnússon, Charmene Pang, Emilía B. Gísladóttir, Erna Gunnarsdóttir, Félix U. Alejandre, Saga Sigurðardóttir, Shota Inoue, S. Andrean Sigurgeirsson, Una B. Bjarnadóttir, Védís Kjartansdóttir

Sesselja G. Magnúsdóttir

Rómeó og Júlía eftir Shakespeare hefur verið kölluð ástarsaga allra tíma. Hryllingssaga úr heimi feðraveldisins væri þó kannski frekar réttnefni því í henni eru barnabrúðir viðurkennd leið til að viðhalda valdi og drengir eru aldir upp við að bardagar, hefndir og dauði séu eðlilegur hluti af samfélaginu.

Í sögunni er Júlía komin á giftingaraldurinn þrettán ára gömul og vart farin að hafa á klæðum. Hún er saklaus og nánast barnsleg enda á hún á að vera óspjölluð fyrir verðandi eiginmann sinn, mun eldri mann. Fyrir tíma getnaðarvarna voru barneignir óhjákvæmilegir fylgifiskur kynlífs svo skírlífi tryggði engin börn.

Rómeó, líklega einhverjum árum eldri en Júlía, á aftur á móti að kynnast lífi karlmannsins. Að geta barist og haldið heiðri með blóðhefndum er hluti af því og að kynna sér og æfa sig í kynlífi hjá þar til gerðum konum – barneignir þeirra eru ekki umfjöllunarefni í þessari sögu frekar en annars staðar.

Í veruleika og söguheimi Shakespeares er því ekki pláss fyrir smáskot unglinga sem eru að uppgötva eigin líkama eftir breytingar kynþroskaaldursins og nýjar og spennandi kenndir. Hvað þá ef fjölskyldur þeirra berjast á banaspjótum um áhrif og völd.Lögmál dansinsÞað er ekki okkar að dæma samfélög fyrri tíma en algjörlega okkar að skoða þau á gagnrýninn hátt út frá okkar siðgæði.

Dansverkið Rómeó og Júlía eftir Ernu Ómarsdóttur og Höllu Ólafsdóttur, sem frumsýnt var af Íslenska dansflokknum á Stóra sviði Borgarleikhússinn föstudaginn 1. október, náði á sterkan hátt að sýna okkur söguna með gleraugum okkar samtíma og siðgæðis.

Notuð voru lögmál dansins til að koma öllum þáttum sögunnar til skila á táknrænan en þó sannfærandi hátt. Bardagasenur á milli ættanna birtast í hráu ofbeldi, spörkum og kýlingum, þar sem karlar berir að ofan blésu sig út eins og hanar í slagsmálum.

Líkamsbeiting þeirra endurspeglaði neikvæða karlmennskuímynd þar sem hroki, yfirgangur og kynferðislegar hreyfingar eins og árásargjarnir mjaðmahnykkir voru áberandi. Óbeisluð veisluhöld þar sem kynferðislegar langanir fengu útrás voru sett á svið.

Mitt í þessu öllu birtist ástin í blíðlegri nærveru að reyna að lifa af og sakleysið að finna sér farveg í hörðum heimi.

Frumlegir búningar

Erna og Halla eru trúar sögunni og nota til þess tónlist Sergei Prokoviev sem grunn að uppfærslunni. Fyrir þá sem horft hafa á ballettinn við þá tónlist eru senurnar auðþekkjanlegar og stemmingin í hverri þeirra kemst vel til skila þó útfærslan sé gjörólík.

Dansinn og líkamleg tjáning er góður miðill til að koma öllu því tilfinningagalleríi sem er í sögunni til skila en krefst um leið sterkrar danssmíði einhvers sem höfundarnir kunna að nýta sér til fulls. Val á hreyfingum, notkun rýmisins og samspil dansaranna varð að vera vel útfært til að merkingin kæmist til skila og þar vantaði ekkert upp á.

Í bland við ögrandi og frumlega búninga og stílhreina og sterka leikmynd tókst danssköpunin einstaklega vel. Flæðið í verkinu var gott og hvað eftir annað urðu til töfrandi augnablik sem heilluðu áhorfandann. Meira að segja á meðan myndum var varpað á skjá í seinni hlutanum, greinilega nýttar til sviðskiptingar, hélst stemmingin og heildarflæðið en ljós og reykur hjálpuðu þar til.

Mikill hraði

Eitt af því sem var áhugavert við dansinn var að hefðbundin kynhlutverk voru þurrkuð út. Enginn einn var Júlía eða þá Rómeó heldur tjáði hópurinn þau og tilveru þeirra sem heild. Kvendansararnir voru jafn útbelgdir bardagaseggir og karldansararnir. Val á hreyfiforða var áhugavert.

Í upphafi verksins voru sterkar vísanir í ballett, fágaðan og ljóðrænan með yfirstéttarbrag en þegar líða fór á sýninguna og sagan varð alvarlegri fór líkamsbeitingin að verða gróteskari, dansararnir færðust nær gólfinu og dýrslegri líkamstjáning kom í ljós. Allir hlutar verksins voru gífurlega krefjandi fyrir dansarana.

Hraðinn var mikill og nánast engin pása því allir voru á sviðinu nær allan tímann. Dansararnir stóðu vel undir væntingum allir sem einn og unnu saman sem smurð vél.

Rómeó og Júlía er heils kvölds ballett með hléi þar sem sagan af unglingunum sem ekki máttu eigast vegna valdabrölts fjölskyldna sinna er sett fram á frumlegan og sterkan hátt. Í dansverkinu er ekki síður einblínt á það samfélag og menningu sem sagan fjallar um en ástir einstaklinganna. Eitthvað sem talar að mínu mati mun sterkar til samtímans.

Niðurstaða: Áhrifamikil sýning þar sem dansformið er nýtt til að koma stórum tilfinningum og válegum atburðum til skila á snilldarlegan hátt. Verkið er bæði kröftugt og á köflum ofsafengið en einnig viðkvæmt og fallegt.