Leikhópurinn Rokkur Friggjar frumsýnir verkið Forget-Me-Nots eða Gleym-mér-Eyjar. Í verkinu er fjallað um „ástandið“ svokallaða, þegar breski herinn kom til Íslands í seinni heimsstyrjöldinni, frá alveg nýju sjónarhorni. Verkið sýnir ástarsamband milli tveggja karlmanna og vildi leikhópurinn með sýningunni varpa ljósi á þá hlið „ástandsins“, sem hingað til hefur ekki fengið mikla umfjöllun.

„Verkið gerist í Hvalfirði um 1940 þegar breski herinn er að nema land og ég leik þar strákinn Sigga. Hún Halla Sigríður leikkona leikur mína bestu vinkonu sem heitir Gréta. Siggi og Gréta eru alin upp þarna saman og hún ber einhverjar tilfinningar til hans, en svo kynnumst við bæði honum Thomasi, sem er breskur hermaður. Við Thomas eigum svo í ástarsambandi sem við neyðumst til að fela,“ segir Fannar Arnarsson einn aðalleikari verksins í samtali við Fréttablaðið í dag.

Kveikjan að sýningunni er afi leikstjórans sem ólst upp í Hvalfirði þegar atburðirnir áttu sér stað, en höfundur og leikstjóri verksins er Anna Íris Pétursdóttir.

„Á þessum tíma var þetta kannski ekki ólöglegt en ef slík atvik komu upp þá gátu allir fríað sig allri ábyrgð. Ef samkynhneigður hermaður bað um hjálp þá mátti hundsa það. Þetta er svona partur af „ástandinu“ sem kannski fólk hefur ekki heyrt um áður. Það var auðvitað alveg þannig að karlarnir klæddu sig upp, eins og konurnar, til að kíkja á braggana og á böll til að skoða þessa nýju karla sem komu frá Bretlandi,“ segir Fannar.

Í boði breska hersins í Edinborg

Sýningin er frumsýnd á föstudaginn í Gaflaraleikhúsinu og fer síðan á Reykjavík Fringe Festival sem verður haldin í fyrsta skipti í ár í Reykjavík.

„Við erum síðan að fara til London að sýna og var boðið að leika í Charterhouse sem er hús sem var byggt um 1300. Okkur var boðið að sýna í eina salnum utan hallarinnar þar sem Elísabet fyrsta Englandsdrottning krýndi riddara hér áður fyrr. Sem er pínu klikkað og skemmtilegt,“ segir Fannar. 

Hann segi að þau klári síðan sýningar erlendis á Edinborg Fringe Festival sem er ein stærsta leiklistarhátíð í Evrópu.

„Þar er breski herinn að sjá um okkur. Þau buðu okkur að koma og sáu um að finna svið fyrir okkur og eru að auglýsa viðburðinn í Edinborg,“ segir Fannar að lokum.

Sýningin er samstarfsverkefni íslenskra og enskra listamanna og fer því fram á ensku. Hægt er að kynna sér leikhópinn hér á Facebook-síðu þeirra og viðburðinn sjálfan hér.