Fram eftir nýliðnu sumri börmuðu íbúar suðvesturhornsins sér óspart yfir kaldri tíð og vætu. Það leiddi til fyrirsjáanlegra brandara um illsku veðurfræðinga og fljótlega varð vart við mikinn sölukipp í utanlandsferðum hjá flugfélögum landsins. En þótt stundum hafi rignt og jafnvel blásið, þá komst sumarið ekki í hálfkvisti við rigningarsumarið mikla í Reykjavík árið 1913.

Þórbergur Þórðarson lýsir því ömurlega sumri í síðasta kafla bókarinnar Ofvitans: „Vorið hafði verið kalt og næðingasamt, en þegar leið fram í júnímánuð, fór hann að draga sig í deyfur, sem urðu þungbúnari og mollulegri því lengra sem leið á mánuðinn. Undir mánaðarlokin lagðist hann í stöðugar vætur, svo að þetta sumar var talið eitthvert mesta óþurrkasumar, sem elztu menn mundu þá eftir á Íslandi. Langt fram eftir sumri var hinn fagurblái himinn kafinn suddagráu skýjahafi. Það rigndi meira og minna dag eftir dag og viku eftir viku, sjaldan stórrigningar, heldur suddaýringur og skúraveður.“

Lýsingar Þórbergs á dagvaxandi angist hans yfir rigningunni eru í senn átakanlegar og sprenghlægilegar. Á hverjum degi gekk hann upp á Skólavörðuholt að gá til veðurs og huggaði sig við að uppi í Kollafirði virtist betra veður með sólarglennum, sem sjá mætti af björtum bletti efst í fjallshlíð í austanverðri Esjunni. Vonbrigðin urðu enn sárari þegar upp fyrir honum rann að það var ekkert sólskin á tindinum, heldur bara ljósleitt grjót sem villti sýn.

Fyrir Þórberg Þórðarson var það nánast spurning um líf eða dauða að hætti að rigna. Sumarið 1913 hafði hann nefnilega ráðið sig til vinnu hjá Ástu málara, en hún treysti viðvaningum ekki til að mála innandyra. Þórbergur fékk einungis að mála utandyra og í þurru veðri. Hann var því með öllu tekjulaus og þurfti að slá vini og kunningja um lán fyrir sérhverju mjólkurglasi og bakaríssnúð sem hann keypti sér, en ef marka má Ofvitann var það nálega eina fæða skáldsins á þessu tímabili.

Með súldinni og votviðrinu rann draumur Þórbergs Þórðarsonar hægt og bítandi út í sandinn. Hann hafði gert sér vonir um að geta þénað góða peninga á sumrin meðfram skólanáminu, eftir að hafa lært handverkið hjá fröken Ástu. „Það myndu áreiðanlega margir fá mig til að mála hjá sér. Það myndu allir segja um mig: Hann hefur lært hjá frægasta málarameistara landsins. Hann kvað vera afskaplega flinkur. Ef til vill yrðu skrifaðar um mig greinar í Ísafold og Vísi. Ég er líka sjálfstæðismaður. Seinni partinn í sumar gæti ég líka farið að mála æðakerfi og hríslur og köngulóuvefi inni í húsum hjá fínu fólki.“

Brautryðjandi

Aldrei kom þurrkurinn og Þórbergur tók þann kostinn að losna undan samningi hjá fröken Ástu. Þess í stað réðst hann til annars málara, sem treysti nýgræðingum til að mála gólf innandyra. Spekingurinn úr Suðursveit lærði því hvorki að draga upp æðakerfi né köngulóuvefi. Þar var skáldið að vísa til þeirra veggskreytinga sem fínastar og flottastar þóttu í húsum broddborgara um þessar mundir, þegar málarar hermdu eftir marmaraáferð á stórum veggflötum. Í þeirri list þótti Ásta málari bera af öllum öðrum.

En hver var Ásta málari, sem Þórbergur kallaði frægasta málarameistara bæjarins og sem hefði fengið greinar um sig í blöðin? Ásta Kristín Árnadóttir fæddist árið 1883 í Ytri-Njarðvík, næstelst tíu systkina. Þegar Ásta var sautján ára gömul lést faðir hennar og fjölskyldan horfði fram á örbirgð.

Táningsstúlkan var þegar staðráðin í að fá sér vinnu og afla tekna til að styðja við bakið á móður sinni og systkinahópnum. Vandinn var hins vegar að kvennastörf voru illa launuð og gáfu lítið svigrúm til að leggja til hliðar. Ásta íhugaði því að gerast sjómaður, en afréð að lokum að reyna fyrir sér sem iðnnemi, nánar tiltekið sem málari, en sem barn hafði hún hjálpað til við að mála barnaskóla sem faðir hennar rak.

Málaraiðnin var að festa sig í sessi á Íslandi um þessar mundir og gekk Ásta á milli málara í höfuðstaðnum og falaðist eftir námssamningi. Flestum þótti erindið fráleitt, en henni var þó vísað á Nikolaj Berthelsen, danskan málara sem álpast hafði til Íslands af ævintýraþrá árið 1878 og fest hér rætur. Berthelsen, sem var fyrsti fulllærði málarinn sem starfaði hérlendis, tók erindinu betur en íslensku starfsbræðurnir og féllst á að ráða Ástu.

Freistandi er að skýra frjálslyndi Danans með því að sjálfur átti hann dóttur á líku reki, Ragnheiði Berthelsen, sem sjálf átti eftir að leggja stund á málaraiðn. Ragnheiður nam síðar húsgagnasmíði og starfaði seinni hluta ævinnar í Kaupmannahöfn. Sú saga er sögð að hún hafi, vinnu sinnar vegna, sótt formlega um leyfi til Alþingis til að fá að ganga í karlmannsfötum kvölds og morgna en fengið synjun. Illa gengur þó að fá sannleiksgildi þessa staðfest.

Næstu misserin vann Ásta undir leiðsögn Berthelsens málara ásamt Ragnheiði og fleiri nemum og verkamönnum. Enginn málaranemi hafði lokið sveinsprófi hérlendis og ákvað Ásta eftir nokkur misseri að halda til Kaupmannahafnar til að ljúka prófi. Þar rakst hún á sömu karlrembuveggina. Skóli danska Tæknifélagsins neitaði konum um inngöngu, en með aðstoð vina fékk hún leiðsögn hjá tveimur konunglegum hirðmálurum og sótti jafnframt tíma í myndlist hjá prófessor við Konunglega listaskólann.

Saga til næsta bæjar

Ásta lauk sveinsprófi vorið 1907, fyrst kvenna í Danmörku. Námsþorstinn var þó ekki slokknaður. Hún sótti ýmis námskeið í faginu næsta árið en hélt því næst suður til Hamborgar þar sem hún hóf meistaranám og útskrifaðist árið 1910. Þar með varð hún ekki bara fyrsti Íslendingurinn til að ljúka meistaraprófi í iðngrein, heldur fyrsta konan með meistaranafnbót í málaraiðn í Þýskalandi. Var afrekinu slegið upp í fjölmörgum þýskum blöðum, þar sem því var raunar slegið föstu að Ásta væri fyrsti kvenmálarameistari í heiminum öllum.

Þrátt fyrir meistaragráðuna var Ástu óheimilt að hefja sjálfstæðan atvinnurekstur í Þýskalandi, þar sem hún væri kona og útlendingur í þokkabót. Ólíklegt er þó að hún hafi haft nokkurn hug á slíku, en þess í stað stofnaði hún fyrirtæki í Kaupmannahöfn í samvinnu við danska konu og hófust þær handa við málningarstörf.

Reksturinn reyndist þungur og var þessum nýju keppinautum tekið afar illa af þeim málurum sem fyrir voru á fleti. Einkum voru eiginkonur málaranna harðskeyttar í andstöðu sinni og sökuðu Ástu og samstarfskonu hennar um að ræna eiginmenn sína vinnunni. Var fyrirtækinu því slitið og sneri Ásta heim til Íslands árið 1912, mátulega í tíma fyrir rigningarsumarið mikla.

Næstu átta árin var Ásta vinsælasti og eftirsóttasti málarinn í Reykjavík og skreytti stofuveggi ríkustu og áhrifamestu bæjarbúanna. Ríkjandi tíska kallaði á flókið handverk innanstokks, þar sem handmáluð voru flókin rósamynstur upp við loftlista. Þá voru fagurskreyttir bekkir vinsælir á neðri hluta veggja, einkum í stigum. Flóknustu málningarverkefni kölluðu á gríðarlega mörg handtök, enda höfðu meistararnir fjölda undirsáta og nema. Kunnasti nemandi Ástu málara frá þessum tíma er vafalítið Freymóður Jóhannsson, sem síðar varð kunnur listamaður og menningargagnrýnandi.

Ekkert bendir til annars en að reksturinn hafi gengið prýðilega hjá Ástu, en árið 1920 virðist flökkueðlið á ný hafa látið á sér kræla. Þá ákvað hún að flytja til Ameríku, þó sú dvöl hafi upphaflega aðeins átt að vera til eins árs. Aðdragandi ferðarinnar var óvenjulegur. Svisslendingur að nafni Jakob Thoni var brennandi áhugamaður um allt sem tengdist Íslandi og hafði rekið augun í eina af blaðafréttunum um meistaranám Ástu í Hamborg. Hann sendi henni þegar í stað bréf og næsta áratuginn urðu þau pennavinir. Eftir að Thoni fluttist vestur um haf hvatti hann Ástu til að heimsækja sig, þau felldu hugi saman og gengu í hjónaband.

Ásta málari bjó í Bandaríkjunum til æviloka árið 1955. Þrátt fyrir stóran frændgarð og sterk tengsl við ættjörðina kom hún aðeins tvisvar sinnum aftur til Íslands, í bæði skiptin í stuttar heimsóknir. Fyrir vikið hefur nafni hennar ekki verið haldið á lofti sem skyldi, ef horft er til brautryðjendastarfs hennar á sviði iðnmenntunar kvenna á Íslandi og raunar víðar. En það er þó ekki slæmt að vera aukapersóna í sjálfum Ofvitanum, þrátt fyrir að hafa nálega svelt Þórberg Þórðarson í hel.