Birgitta Birgisdóttir fer með hlutverk listakonunnar Ástu Sigurðardóttur í leikritinu Ástu sem frumsýnt verður í Kassanum á föstudagskvöld.

Ólafur Egill Egilsson er höfundur handrits og leikstýrir verkinu. Leikritið er byggt á lífi og list Ástu Sigurðardóttur (1930-1971) sem var goðsögn í lifanda lífi.

Ritverk hennar og myndlist vöktu aðdáun en hneyksluðu einnig marga.

„Ásta er búin að vera límd við heilann á mér í mörg ár,“ segir Birgitta.

„Árið 2016 lék ég Þórgunni í Djöflaeyjunni og við Filippía Elíasdóttir búningahönnuður notuðum þar Ástu sem fyrirmynd. Upp frá því fór ég mikið að hugsa um Ástu.“

Fallegt myndband

Það má því segja að Birgitta sé nú í draumahlutverki sínu og hún hefur undirbúið sig vel. „Ég hef gengið um Kópavoginn þar sem hún bjó með Þorsteini og farið oftar en einu sinni í kirkjugarðinn til að heimsækja leiði Ástu. Ég hef lesið allt sem hún skrifaði og viðtöl við fólk sem þekkti hana.

Ólafur Egill og Andrea Vilhjálmsdóttir, aðstoðarleikstjóri og dramatúrg, hafa sankað að sér öllu sem fyrirfinnst um Ástu, eins og ritgerðum hennar úr Kennaraskólanum. Því miður eru ekki til myndbönd sem sýna hvernig hún bar sig. Við fundum þó eitt myndskeið, ótrúlega fallegt, þar sem hún er á skipi ásamt öðrum. Myndavélin sýnir þetta unga fólk þar sem það situr, drekkur, reykir og hlær og skemmtir sér greinilega mjög vel. Svo er til upptaka frá útvarpsleikhúsinu þar sem Ásta les kafla úr sögu. Það er þetta sem við höfum: lítið myndskeið, stutt upptaka, nokkrar myndir af henni, bréf hennar og svo frásögur fólks.“

Birgitta segir að fólk hafi verið duglegt við að hafa samband við leikstjórann Ólaf Egil og sagt honum frá kynnum af Ástu, en einnig hafi fólk sett sig í samband við hana.

„Allar þessar sögur eiga eitt sameiginlegt, allir nefna það hversu glæsileg Ásta var, þótt hún væri orðin heimilislaus, búin að missa allt og í mikilli neyslu.“

Mesta áskorunin

Í leikritinu er svipmyndum af Ástu og skáldskap hennar fléttað saman. Matthildur Hafliðadóttir söngkona og hljómsveit Guðmundar Óskars Guðmundssonar flytja ljóð Ástu. Lífshlaupi Ástu er lýst og fjallað um rætur hennar í sveitinni og sambandið við foreldrana.

„Faðir hennar var enginn bóndi en mikill bókamaður og náttúruunnandi og móðirin var mjög trúuð. Náttúran var stórt afl í lífi hennar,“ segir Birgitta. „Við förum einnig á Laugaveg 11 þar sem hún var fastagestur og svo er vitanlega fjallað um einkalíf hennar. Varðveist hafa bréf sem fóru á milli hennar og Oddnýjar systur hennar sem bjó lengi í útlöndum. Þar skrifar Ásta jafnvel upp heilu senurnar fyrir systur sína: Hann sagði og þá sagði ég... Þetta nýtum við í verkinu.“

Birgitta segir hlutverk Ástu vera mjög krefjandi.

„Mesta áskorunin fyrir mig sem leikkonu er að vorkenna henni ekki of mikið. Það er mjög stutt síðan ég komst í gegnum lokin á æfingasýningum án þess að gráta. Ásta á mig.

Örlög hennar voru ótrúlega sorgleg. Sjálf fann hún til með lítilmagnanum en endaði ævina á því að verða lítilmagni. Hver veit hvernig henni hefði vegnað hefði hún verið uppi á öðrum tíma og jafnvel búið annars staðar í heitara og frjálslegra samfélagi, til dæmis í París? Þá hefði hún hugsanlega lifað lengur, en hennar djöfull var áfengissýkin sem dró hana til dauða.“