Tölvuvírusar eru flestir hannaðir af hrekkjalómum eða óprúttnum aðilum til þess að í besta falli hrekkja og dreifa amapósti og í versta falli að stela lykilorðum eða upplýsingum, spilla skjölum, senda sýkta tölvupósta á tengiliði og jafnvel taka yfir stjórn tölva.

Vírusar dreifa sér með því að tengjast skjölum eða forritum í tölvum. Þannig geta vírusar ferðast með þeim frá einni tölvu til annarra með hjálp netkerfa, geymsludiska, skjaladeilileiða, sýktra viðhengja í tölvupósti eða annars. Sumir vírusar nota meira að segja mismunandi leiðir til að dyljast í tölvukerfum, sem gerir það erfitt fyrir vírusvarnaforrit að finna þá.

Kvikindiskerfi

Fyrsti tölvuvírusinn er af mörgum talinn vera hinn svokallaði Creeper system. Vírusinn, sem fjölgaði sér sjálfur, var gerður í tilraunaskyni og prófaður árið 1971. Vírusinn var búinn til af Bob Thomas hjá fyrirtækinu BBN Technologies í Bandaríkunum. Upphaflega var hann búinn til sem öryggispróf til að sjá hvort hægt væri að búa til sjálffjölgandi tölvuforrit.

Creeper system-vírusinn virkaði þannig að hann fyllti upp í plássið á harða drifi tölvunnar uns hún hætti að starfa. Creeper system fjarlægði sjálfan sig úr hverju tæki með hverri nýrri tölvu sem hann sýkti. Enginn illur ásetningur var falinn í vírusnum og sýndi hann aðeins einföld skilaboð: „Ég er kvikindi. Reyndu bara að ná mér.“

Eitruð ástarjátning

ILOVEYOU er einn skæðasti og mest smitandi tölvuvírus sem hefur nokkurn tíma verið skrifaður og kom fram á sjónarsviðið í maí árið 2000. Um var að ræða tölvuorm sem fór eins og eldur í sinu um tölvur heimsins og olli skemmdum sem kostuðu því sem nemur um 1.300 milljörðum íslenskra króna.

Um var að ræða forrit sem var sent sem viðhengi í tölvupósti með titlinum ILOVEYOU. Viðhengið hét LOVE-LETTER-FOR-YOU.TXT.vbs sem var VBScript-forrit. Viðtakendur tölvupóstsins héldu að viðhengið í ILOVEYOU væri einföld textaskrá, þar sem .vbs-halinn var falinn í Windows-tækjum. Ormurinn veldur skemmdum á tölvunni sem hann sýkir og skrifar yfir handahófskenndar skrár, allt í senn Office-skjöl, myndir eða hljóðskrár. Þegar vírusinn skrifaði yfir MP3-skrár faldi hann skrána. Þegar skráin var opnuð komst vírusinn í Outlook-tengiliði fórnarlambsins og endursendi sýkta tölvupóstinn til allra tölvupóstfanganna þar. En þessi leið var mjög áhrifarík enda nýtti vírusinn sér þá staðreynd að viðtakandi þekkti sendandann og hikaði því síður við að ýta á innihaldið.

Falinn Grikki í tölvuleik

Fyrsti trójuhesturinn nefndist Animal og var skrifaður árið 1975 af John Walker. Þó eru skiptar skoðanir um hvort sá vírus hafi verið eiginlegur trójuhestur. Á þessum tíma voru dýraforrit vinsæl sem virkuðu þannig að notandinn fékk 20 spurningar og í lokin giskaði forritið á hvaða dýr notandinn var að hugsa um. Útgáfan af leiknum sem Walker skrifaði var vinsæl. Til þess að tryggja að hans útgáfa dreifðist sem víðast skrifaði Walker annað forrit sem kallaðist Prevade sem hann faldi í Animal-forritinu. Á meðan notendur spiluðu Animal skoðaði Prevade skráasöfn tölvunnar og fjölfaldaði Animal þar sem það var ekki nú þegar. Þannig faldi Prevade sig í Animal líkt og Grikki í trójuhesti.

Tölvuvírusar hafa verið hluti af tölvuheiminum í yfir 60 ár og það sem áður var aðallega skemmdarverk hefur þróast yfir í tölvuglæpi. Tölvuvírusar, ormar og trójuhestar þróast í sífellu. Það virðist ekkert vera visst í þessum heimi, nema breytingin sem knýr áfram bæði varnar- og sóknarliða.