Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur verið valin stjórnmálamaður ársins af samtökunum One Young World. Áslaug Arna er einn af fimm sem samtökin velja og segir í Facebook-færslu að það sé „einstaklega gaman“ þegar tekið er eftir því utan Íslands hvað hún er að gera.
„Það er hvatning og skemmtileg viðurkenning að vera ein af sigurvegurum One Young World sem hvetur ungt fólk til dáða á ýmsum sviðum,“ segir Áslaug Arna.
Í umsögn samtakanna um Áslaugu Örnu er farið yfir feril hennar innan Sjálfstæðisflokksins en aðeins 24 ára gömul bauð hún sig fram sem ritara flokksins og var kjörin. Árið 2019 var hún skipuð dómsmálaráðherra og var þá sú yngsta sem hafði tekið við því embætti.
Þá segir að allan hennar feril hafi hún lagt áherslu á jafnrétti kynja og hafi sem dæmi skipað tvo kvenkynshæstaréttardómara og þannig tryggt í fyrsta sinn jöfn kynjahlutföll í dómstólnum.
Þá er fjallað um frumvörp hennar um eltihrella og stafrænt kynferðisofbeldi sem voru samþykkt á meðan hún enn sat sem dómsmálaráðherra.
Hægt er að kynna sér málið nánar hér að neðan.