„A-úrslitin í tölti eru ómissandi,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um hennar eftirlætis viðburð á Landsmóti hestamanna.

Áslaug Arna hefur haft hina ýmsu hatta á Landsmóti. Hún hefur verið keppandi, starfsmaður hrossaræktarbús, blaðamaður fyrir hönd Morgunblaðsins og lögregluþjónn þegar Landsmótið var á Hellu. Sömuleiðis hefur hún í tvígang leitt hópreiðina á hestbaki.

„Ég var ágæt,“ segir Áslaug aðspurð hvernig henni hafi gengið á mótunum. Hún keppti fyrst árið 2002, þá að verða tólf ára gömul, en hefur sótt hátíðina reglulega frá því að hún var barn.

„Ég komst aldrei í úrslit á Landsmóti en ég var nálægt því þegar ég komst upp í milliriðil. Ég á ekki Landsmótatitil en ég á Suðurlandsmeistaratitil og nokkra aðra minni titla.“

Ráðherrann segir Landsmót hestamanna vera hátíð til að hittast og gleðjast.
Mynd: Reykjavíkurborg

Frá upphafi hefur Landsmót hestamanna verið einn stærsti íþróttaviðburður landsins. Keppt er í stórum greinum, íslenskir hrossaeigendur mæta til að sýna sína frægustu fola og erlent áhugafólk mætir til að dást að íslenska hestinum.

Ráðherrann segir þetta hátíð til að hittast og gleðjast. „Það er ótrúlega gaman að koma saman á svona hátíð, bæði til að horfa á bestu hesta landsins og hitta fólkið sem vinnur hörðum höndum í hestamennsku og alla þá sem hafa áhuga á íslenska hestinum.“

Skemmtilegast sé að sjá hvort þekktu hestarnir verji titla sína. „Í gamla daga var rosa sport að sjá Orra frá Þúfu, langfrægasta stóðhestinn. Þá var alltaf mikil eftirvænting að sjá hann koma fram með afkvæmum sínum, til dæmis með afkvæmum sínum. Margir þekktir hestar í dag eiga ættir að rekja til hans,“ segir ráðherrann.

Hún segir A-úrslitin í tölti vera ómissandi viðburð. Hún mælir með að gestir mæti í bestu lopapeysunni. „Það er að kvöldi til, alltaf mikil stemning í brekkunni og þar sér maður bestu töltara landsins.“

Aðspurð segist hún vonast til að geta kíkt á hátíðina. „Ég mun því miður ekki geta verið eins mikið og ég hefði viljað.“

Landsmót hestamanna fer fram á Hellu 3. til 10. júlí.