Á meðan samkomubann vegna kórónaveirufaraldursins stendur yfir verður fólk þyrst í mismunandi afþreyingu. Þessu hefur hljóðbóksveitan Storytel heldur betur fundið fyrir með mælanlegum hætti.

Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri veitunnar, segir í samtali við Fréttablaðið að bæði áskriftasöfnun og hlustun hafi tekið verulegan kipp frá því á sama tíma í fyrra.

„Við gáfum út okkar fyrstu eigin framleiðslu, Sönn íslensk sakamál, í upphafi þessa árs og fórum í kjölfar í nokkra markaðsherferð. Þá kom mikil aukning bæði í áskriftum og hlustun hjá okkur," segir Stefán um þróun mála hjá Storytel.

Viðskiptahópurinn hefur verið að breytast

„Það hægðist svo á þeirri aukningu í febrúar eins og eðilegt er en bæði áskriftirnar og hlustunin tvöfölduðust svo frá því á sama tíma í fyrra í mars," segir hann enn fremur.

„Sá hópur sem er að skrá sig í áskrift og hlusta á hljóðbækurnar er að breikka. Það er að segja að við erum að fá þjóðfélagshópa sem hafa ekki verið í viðskiptum við okkur áður. Við erum til að mynda að sjá unga karlmenn í auknum mæli nýta sér þjónustu okkar," segir framkvæmdastjórinn.

„Stefnan er að auka meira við eigin framleiðslu íu anda Sannra íslenskra sakamála hjá okkur í framhaldinu en um það bil af efni sem við bjóðum uppá er framleitt af okkur. Fjöldi útgáfenda sem framleiða efni fyrir okkur er svo alltaf að stækka og því er framboðið sífellt að aukast hjá okkur í takt við aukna eftirspurn," segir Stefán.