„Þetta var stutt frí og við áttum alveg von á að það yrðu mikil fagnaðarlæti þegar við myndum hætta,“ segir Frosti Logason, annar Harmageddon-bróðirinn, um endurkomu hins vinsæla útvarpsþáttar í áskriftarhlaðvarpi. Þá segir hann ljóst að þorstinn eftir hlaðvörpum almennt sé mikill.

„Og við erum bara hrærðir yfir viðbrögðunum en frá því að við tilkynntum að við færum í loftið með podcast hafa áskrifendur streymt inn og þetta fer fáránlega vel af stað.

Það kom okkur líka skemmtilega á óvart að það voru talsvert fleiri sem söknuðu okkar heldur en hitt,“ heldur Frosti áfram og bendir á að svo virðist sem hópurinn sem láti þá Mána fara í taugarnar á sér sé miklu minni en hávaðinn í þeim gefi til kynna.

Fylla eigið skarð

„En svona í alvöru talað þá er bara virkilega gaman að finna þennan mikla söknuð og þótt þetta væri ekki langur tími þá fundum við, í raun og veru, bara sjálfir, að það myndaðist strax ákveðið gat og það vantaði svona þessa nálgun sem við erum kannski þekktir fyrir.“

Frosti segir „einhverjar podcast-hugmyndir“ þannig hafa komið upp fljótlega eftir að útvarpsþátturinn hætti og upphaflega hafi ætlunin verið að hafa einn Harmageddon-þátt í viku. „En það þróaðist þannig að við urðum bara spenntari og gíruðumst upp í að gera meira þannig að á endanum var ákveðið að við myndum sem sagt gera að minnsta kosti tvo Harmageddon-þætti í viku.

„Við höfum haft þetta aðeins opið núna bara til þess að kynna hlaðvarpið,“ segir Frosti um þau viðtöl sem enn eru öllum opin. „En að mestu leyti verður þetta allt læst í framtíðinni þótt það muni alltaf koma eitthvað svona eitt og eitt sem við teljum samfélagslega mikilvægt og verði að fara út um allt og þá höfum við það opið.“

Hvergi slegið af Axel Pétri

Axel Pétur Axelsson, sá ötulli greinandi víðtækra samsæra, hefur um árabil verið fastur gestur í Harmageddon og þeir Frosti og Máni gefa engan afslátt af speki hans sem er nú þegar lokuð öðrum en áskrifendum.

„Það er svolítið fyndið með Axel Pétur að hann skiptir fólki náttúrlega alveg í tvær fylkingar. Sumir eru brjálaðir yfir því að við skulum yfir höfuð tala við hann. Þetta sé svo mikið rugl að það eigi ekkert erindi við almenning en við erum náttúrlega ósammála því,“ segir Frosti, að vísu með smá fyrirvara.

„En ég skil sko alveg að þetta samsæriskenninga-rant getur verið þreytt en það er þannig að ef þú heyrir í Axel Pétri öðru hvoru þá koma alltaf einhverjir gullmolar inn á milli. Það eru svo rosalega margir hlustendur sem elska að heyra í Axel Pétri og hans merkilegu sýn á lífið, þjóðfélagið og heimsmálin.

Þannig að þótt einhverjir, menn eins og Illugi Jökulsson og svona, hafi verið með stórkarlalegar yfirlýsingar um að við ættum alls ekki að hafa hann í þessu nýja prógrammi okkar og kommentað það á síðuna okkar þá ákváðum við að leyfa frekar massanum að ráða.

Enginn verður verri

Meirihlutinn vill klárlega heyra í Axel Pétri og það er bara ekki hægt að sleppa honum úr þessu. Hann er líka bara góðkunningi þáttarins, bæði okkar og hlustenda,“ segir Frosti og bætir við að það segi sitt um hversu þakklátur viðmælandi Axel Pétur sé að þótt oft slái í brýnu og stór orð falli á báða bóga snúi hann aldrei bakið við Harmageddon.

„Ef við heyrum ekki í honum lengi þá fer hann að velta því fyrir sér hvort það sé búið að múlbinda okkur. Hvort yfirstjórn Znató hafi komið hérna og tekið í taumana. En fólk verður bara einmitt að gerast áskrifendur til þess að heyra í Axel. Það verður enginn verri maður af því.“

Peninganna virði

Frosti segir áskrifendafjöldann þegar kominn fram úr bjartsýnustu áætlunum og umhverfið virðist hafa breyst þannig að fólk sé frekar tilbúið til að greiða fyrir fjölmiðlaáskrift.

„Íslendingar hafa undanfarin ár vanist því að fá allt frítt en núna finnst okkur góð fjölmiðlun alveg þess virði að borgað sé fyrir hana og við erum náttúrlega að sjálfsögðu með mjög sanngjarnt verð. Þetta er ekki einu sinni einn bjór ár barnum. Bara 1.190 kall á mánuði.

Maður finnur líka til meiri ábyrgðar gagnavart hlustendum af því að þeir eru að borga fyrir þetta tiltekna efni,“ heldur Frosti áfram og talar um nýja og skemmtilega tilfinningu í þessu sambandi. „Við finnum fyrir svona meiri skyldurækni gagnvart hlustendum okkar sem eru þarna úti og vilja fá Harmageddon-ið sitt.“

Ósýnilegar raddir

Frosti upplýsir að alls konar aukaefni muni einnig fylgja nýja hlaðvarpinu. „Ég er að gera seríu um heimilislaust fólk sem mikið er talað um í fjölmiðlum án þess að verið sé að ræða við það sjálft,“ segir Frosti og nefnir til dæmis þrætur um gámahýsi og hvar þeim skuli komið fyrir.

„Og mér fannst mikilvægt og spennandi að kynnast þessum heimi og ég hef verið að ræða við og á eftir að birta seríu af viðtölum við fólk sem glímir við bæði fíknivanda, heimilisleysi og áskoranir sem hinn almenni borgari verður voða lítið var við í sínu lífi.“