Í tengslum við sýninguna Landvörður sem stendur yfir á Ljósmyndasafni Reykjavíkur munu fulltrúar Landvarðafélags Íslands flytja erindi á safninu á fimmtudag klukkan 16. Þar munu þær Nína Aradóttir, formaður Landvarðafélagsins, og Júlía Björnsdóttir, landvörður í Öskju, fjalla um mikilvægi náttúrutúlkunar, segja skemmtilegar sögur úr starfinu og fjalla um áskoranir sem stéttin stendur frammi fyrir.

„Það var bara brennandi áhugi á náttúrunni og náttúruvernd,“ svarar Nína aðspurð hvað laðaði hana að starfinu en hún er einnig í doktorsnámi í jökla­jarðfræði. „Þetta vinnur vel saman.“

Þær áskoranir sem landverðir á Íslandi standa frammi fyrir í dag eru að sögn Nínu að miklu leyti tilkomnar vegna samspils þess að við viljum vernda náttúruna á sama tíma og við viljum bjóða fólki inn á svæðin og sýna því hana.

„Við erum enn þá að vinna úr því að eftir að ferðamannastraumurinn á Íslandi jókst þá hefur landvarslan að mínu mati verið undirfjármögnuð,“ segir hún. „Það eru ekki nógu margir að sinna störfunum sem við eigum að vera að sinna.“

Sem dæmi um svæði sem hefur orðið fyrir barðinu á auknum ágangi ferðamanna nefnir Nína Friðland að Fjallabaki þar sem hún hefur unnið á undanförnum árum.

„Þótt það hafi margt gott gerst þar síðastliðin sumur þá höfum við ekki náð að standa straum af öllum þeim verkefnum sem eru þar miðað við fjölda ferðamanna,“ útskýrir hún. „Þetta snýst bæði um að halda svæðinu snyrtilegu en líka að fræða og tryggja öryggi gesta. Við verðum að þekkja færð og aðstæður á leiðum sem fólk gengur og keyrir og að halda þeim í góðu ástandi.“

Nína segir að verkefnin geti verið tímafrek, til dæmis í Landmannalaugum þar sem mikið er um langar gönguleiðir. Nýlegt dæmi um ágang á náttúruna var utanvegaakstur í Vatnajökulsþjóðgarði sem rataði í fjölmiðla á dögunum.

„Þótt lífríkið á þessum stöðum sé ekki augljóst þá er það mjög mikilvægt. Förin sem bílarnir skilja eftir geta breytt svo miklu því þeir geta skilið eftir rás sem breytir farvegi vatns sem getur haft keðjuverkandi áhrif á svæðinu, segir Nína. „Þegar keyrt er á grónum svæðum, að ég tali nú ekki um á mosavöxnum svæðum, þá geta áhrifin verið enn alvarlegri. Svo hefur þetta líka sjónræn áhrif sem getur skemmt upplifun fólks af svæðinu. Mikilvægasta forvörnin þegar kemur að utanvegaakstri er í rauninni fræðsla.“