Banda­ríski leikarinn Ashton Kutcher segist í raun vera heppinn að vera á lífi eftir að hafa glímt við ó­hugnan­legan sjúk­dóm sem gerði það að verkum að hann gat ekki gengið og sjón hans og heyrn skertist mjög.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í við­tali við Kutcher í þættinum Running Wild With Bear Grills: The Challen­ge, en sýnis­horn úr þættinum birtist í gær.

Kutcher, sem er 44 ára, hefur ekki tjáð sig um sjúk­dóminn áður en um var að ræða sjald­gæfan bólgu­sjúk­dóm. Segist Kutcher um tíma hafa óttast að geta ekki gengið aftur og þá óttaðist hann að missa bæði sjón og heyrn fyrir fullt og allt. Tók það Kutcher um eitt ár að jafna sig.

Í um­fjöllun CNN kemur fram að um sé að ræða sjúk­dóms­tegund þar sem ó­næmis­kerfi við­komandi ræðst á æða­kerfi líkamans og veldur meðal annars bólgum. Af­leiðingarnar geta verið þær að blóð­flæði skerðist til þeirra líkams­hluta sem verða fyrir á­hrifum. Í verstu til­fellum getur sjúk­dómurinn valdið líf­færa­skemmdum og jafn­vel dauða.

Bent er á það að sams­konar sjúk­dómur hafi dregið banda­ríska leikarann og leik­stjórann Harold Ramis til dauða árið 2014.