Ásdís Ingólfsdóttir, rithöfundur og kennari við Kvennaskólann í Reykjavík, segist ekki hafa þurft að leita langt að innblæstri fyrir sína fyrstu skáldsögu, Haustið 82, sem sækir í dramatíska reynslu hennar af því þegar hún var handtekin í Bandaríkjunum með Kóraninn í skottinu.

„Þótt þetta sé bók um erfiðleika þá er þetta skemmtileg bók. Hún er létt og ég hugsaði hana fyrir ungt fólk. Þetta er bók um ungt fólk fyrir ungt fólk og byggir á þessum atburðum í lífi mínu, til dæmis því að ég var handtekin úti í Bandaríkjunum með vinkonu minni,“ segir Ásdís.

Í söguútdrætti bókarinnar segir að haustið 1982 sé krefjandi fyrir aðalpersónuna Möggu, sem þá er í erfiðu háskólanámi þar sem námslánin duga skammt. Pabbi hennar veikist og mamma hennar gerir illt verra en þegar líður að jólum ákveður hún að leyfa sér að vera hvatvís og skella sér til Bandaríkjanna og heimsækja vinkonu sína yfir jólin.

Vandræði á landamærum

„Við ákváðum að fara að skoða Níagarafossana og þá vildum við endilega skella okkur til Toronto og fórum yfir landamærin, fimm saman einhverjir krakkar. Þegar við komum svo til baka erum við beðin um að sýna passana okkar,“ útskýrir Ásdís. Einn vina þeirra var strákur frá Alsír sem hafði nýverið ferðast til Sovétríkjanna.

„Á þessum tíma, 1982, er okkur einfaldlega bara kippt út úr bílaröðinni þarna við landamærastöðina og við endum á að vera þarna í marga klukkutíma. Við erum tekin í yfirheyrslu og svo er bíllinn tekinn og þá kemur í ljós að vinkona mín sem átti bílinn átti ekki lykilinn að skottinu. Þarna var svona skottlykill,“ segir Ásdís.

Sleggja á lofti

Landamæraverðirnir réttu vinkonunum þá verkfæri, meðal annars sleggju, en vinur þeirra var enn í yfirheyrslu. „Þeir segja okkur að við séum hvergi að fara á meðan við höfum ekki sýnt þeim skottið. Ég var svo barnaleg að mér fannst þetta allt svo kjánalegt og eins og þeir væru að leika í bíó. Svo á endanum náðum við loksins að opna skottið með því að lemja það með sleggju og slá lásinn úr skottlokinu.“

Endurfundir eftir 39 ár

Ásdís segir að þegar skottið opnaðist hafi landamæraverðirnir orðið nokkuð brúnaþungir. „Heyrðu og þá er það ekkert öðruvísi en svo að þá er Kóraninn í skottinu. Ég vissi nú varla hvað það var. Hann var gerður upptækur, ásamt tómum brúsum,“ segir Ásdís. Hópnum hafi verið skutlað áleiðis og vinkonurnar setið úti í bíl þar til yfirheyrslur yfir stráknum frá Alsír kláruðust.

„Þá var komin mið nótt og við enduðum á að gista á einhverju hóteli þarna rétt hjá því við vorum svo eftir okkur. Ég skrifa svo þessa bók núna og fæ vinkonu mína sem ég heimsótti í Bandaríkjunum til að lesa hana yfir. Hún hrósaði mér fyrir það hvað ég mundi þetta vel og þá fórum við að spá í hvar félagi okkar Amin frá Alsír væri. Þá fórum við á stúfana og nú er hún búin að finna hann, 39 árum síðar, í gegnum Facebook,“ segir Ásdís.

Hún segir að þar hafi orðið miklir fagnaðarfundir. „Og bókin varð til þess! Hann varð alveg rosalega glaður og hissa þegar við höfðum samband. Honum fannst þetta alveg yndislegt að þetta hefði svo ratað í bók en fyrir honum var þetta auðvitað miklu alvarlegra atvik en fyrir okkur. Við Íslendingar erum svo mikið á spássíu heimsins og manni dettur ekki í hug að manni sé einu sinni ógnað og ég þarna eitthvað svo örugg á meðan hann var í allt annarri stöðu.“