Fyrirsætan og athafnakonan Ásdís Rán Gunnarsdóttir er byrjuð að selja svartar Metanoa-rósir á Íslandi. Hún féll fyrir svörtu rósunum í Búlgaríu en þær vaxa í Afríku og eru að hennar sögn meðal sjaldgæfustu blóma veraldar.

„Ég varð yfir mig ástfangin af þessum rósum í Sofíu og var mikið búin að pæla í hvað það yrði nú gaman að geta flutt þær til Íslands,“ segir Ásdís Rán í samtali við Fréttablaðið.

Hún lét síðan loks slag standa og fékk eiganda Metanoa de la Rose til þess að hitta sig og skoða möguleikann á því að flytja rósirnar til Íslands.

„Ég fylgdi bara innsæinu og vonandi var það rétt ákvörðun hjá mér en það á eftir að koma í ljós,“ segir Ásdís. „Þetta er fáguð vara og tilvalin tækifærisgjöf handa öllum, líka þeim sem eiga allt. Þetta er einstök gjöf sem gefur fólki ótal möguleika til þess að tjá tilfinningar sínar, segja „takk“, „fyrirgefðu“, „ég elska þig“ og svo framvegis.

Svarta rósin lifir lengst

„Svartar rósir eru sjaldséðar á meðan allir þekkja þær rauðu og tengja þær ást og rómantík,“ segir Ásdís og víkur síðan að sérstöðu svörtu rósarinnar. „Hún stendur fyrir sérstöðu. Hún er sjaldséð og einstök. Svarta rósin er öðruvísi, hún ber af, sker sig úr hópnum og hún er fegurri en allar aðrar. Svarta rósin er „survivor“ og lifir lengst. Hún er alltaf fersk og falleg.“

 Ásdís Rán segir rósirnar geta lifað án vatns eða næringar, ferskar og ilmandi, í hálft ár eða svo. „Rósirnar eru ræktaðar með sérstakri tækni og nærast ekki á vökva en það þarf samt að hugsa vandlega um þær. Þær mega ekki fara í vatn og það þarf að hlífa þeim við beinu sólarljósi og miklum hitasveiflum. Annars segir sagan að ástin og sá hugur sem fylgir þegar þær eru gefnar ráði líftíma rósanna.“

Æskudraumur rætist

Síðustu árin hefur Ásdís Rán búið í Búlgaríu en segist eyða mestum tíma sínum núna heima á Íslandi. „Ég verð samt eflaust alltaf með annan fótinn annarsstaðar en mér finnst fínt að vera komin hingað aftur og hafa fjölskylduna alla saman á einum stað.

Ég nota svo flest tækifæri sem gefast til að fara til Sofiu eða eitthvert annað. Ég er með íbúð og bíl á báðum stöðum þannig að ég lít svo á að ég eigi heima í báðum löndunum. Það var alltaf draumur minn í æsku að hafa aðsetur í fleiri löndum en einu.“

Ásdís Rán hefur komið víða við og gert ýmislegt undir IceQueen-vörumerkinu og svörtu rósirnar marka væntanlega engin endalok í þeim efnum?

„Úff, ég geri mér enga grein fyrir því hvað ég geri næst. Það er alltaf að koma sjálfri mér á óvart hvað mér dettur í hug og hvað gerist næst,“ segir Ásdís og hlær.

Bíður eftir fleiri óvæntum ævintýrum

„Ég er að klára einkaþjálfaranám núna í desember og get þá í framhaldinu farið að deila betur reynslu minni á því sviði með hliðsjón af bókinni minni Valkyrja, sem fólk getur einmitt nælt sér í í Eymundsson fyrir jólin,“ segir Ásdís Rán og bætir við að í bókinni fari hún „einmitt yfir heilsuna, markmiðasetningu, mátt jákvæðninnar og sjálfseflingu.“

Ásdís Rán segist telja mjög líklegt að hún eigi eftir að skrifa fleiri bækur í kjölfar Valkyrju. „Ég er komin á þann aldur að mig langar bara að gera það sem mér finnst skemmtilegt, gerir mig hamingjusama og skilur eitthvað eftir sig. Framtíðin kemur mér vonandi á óvart og verður full af ævintýrum,“ segir Ásdís Rán undir svartri rós.

Ásdís Rán selur svörtu rósirnar sínar á vefsíðunni www.metanoadelarose.is. Hún sendir þær frá sér í gjafakössum með korti og selur hverja rós á 13.900 krónur en takmarkaður fjöldi er í boði.