Ásdís segir að hún hafi lengst af starfsævinni verið kennari. „Ég byrjaði að kenna í kreppunni 1983. Þá var ég nýútskrifuð úr jarðfræði. Í dag kenni ég við Kvennaskólann í Reykjavík en hafði áður kennt við MS og var konrektor þar. Af og til hef ég tekið mér frí frá kennslu og gert eitt og annað. Ég hef meðal annars unnið fyrir Rauða krossinn, starfað hjá tölvufyrirtæki og svo var ég framkvæmdastjóri hjá Karlakór Reykjavíkur í eitt ár. Ég var líka blaðamaður í þrjú ár, 1983 til 1986, á Mogganum. Fyrst var ég í útlitshönnun en fór svo í erlendar fréttir. Það má kannski orða það fallega að ég sé leitandi. Kennslan á reyndar mjög vel við mig, en ég þarf bara að hvíla mig á henni af og til og safna kröftum,“ segir Ásdís. Það var því ekki sérlega ólíkt henni að sækja um nám í ritlist.

Vissi ekki af náminu

Ásdís er 63 ára í dag, en var komin yfir fimmtugt þegar hún sótti um og fékk inni í ritlist í háskólanum. „Það sem ýtti við mér var auglýsing frá Háskóla Íslands um námið. Þá var þetta tiltölulega nýtt nám og ég vissi ekki að ritlist væri kennd við HÍ fyrr en ég sá þessa auglýsingu. Ég var að velta fyrir mér að fara í frekara nám eftir að hafa klárað meistaranám í viðskiptafræði 2008. En þá kom hrunið og ég hélt því áfram að kenna.

Ég varð rosalega glöð en líka hissa þegar ég fékk inngöngu. Ég hafði heyrt að það væri mikil aðsókn í námið og það þurfti að skila inn textum, sem ég valdi af kostgæfni. Bæði sendi ég gamalt efni og svo skrifaði ég nýtt og vissi ekkert hvernig þetta færi.

Það hefur alltaf blundað í mér að skrifa, alveg frá því ég man eftir mér og ég hef skrifað eitt og annað.“ Ásamt því að skrifa sitt eigið efni fyrir skúffuna skrifaði Ásdís kennslubók í efnafræði og vann við blaðamennsku. „Einnig skrifaði ég fyrir Búsetann, sem var blað sem húsnæðissamvinnufélagið Búseti gaf út.“

Hafði einhver fengið að sjá textana þína?

„Það höfðu ekki margir fengið að sjá textana mína, ekki ljóðin til dæmis, kannski bara systir mín. Ég hafði líka sent inn í keppnir, nafnlaust. Ég sótti svo námskeið í ritlist hjá Þorvaldi Þorsteinssyni heitnum og einnig í Endurmenntun. Þar var lesið upp það sem fólk var að skrifa á námskeiðinu. Eftir námskeiðið var svo stofnaður rithringur þar sem við lásum texta hvert annars. Þetta var eina fólkið sem hafði fengið að heyra skáldskap frá mér. Ég er enn þann dag í dag svolítið feimin við að sýna fólki texta, jafnvel mínum nánustu.“

Kjarkurinn kom í náminu

Ásdís hefur nú gefið út þrjár ljóðabækur og segir hún að ritlistarnámið hafi gefið henni kjarkinn. „Ég var eiginlega á því að ljóðin væru ekki mitt þar til ég fór í kúrs hjá Sigurði Pálssyni ljóðskáldi sem sneri lífi mínu til ljóða. Það kom mér eiginlega mest á óvart í þessu námi, því þarna opnaðist eitthvað. Í kjölfarið sendi ég ljóðahandrit til útgefanda sem sagði já. Þá varð ég hissa. Fyrsta ljóðabókin mín, Ódauðleg brjóst, kom út hjá Partusi 2018 og svo hafa komið út tvær aðrar í kjölfarið.“

Og þú varst að gefa út þína fyrstu skáldsögu núna fyrir jólin?

„Já, hún heitir einfaldlega Haustið 82, og er eins konar skálduð minningasaga. Sagan er byggð á atburðum sem urðu í lífi mínu árið 1982, faðir minn veiktist og vinkona mín varð fyrir miklu áfalli. Aðalpersónan, Magga, gengur í gegnum sömu reynslu. Hún er í háskólanum að læra efnafræði og leigir með vinkonum þegar ósköpin ganga yfir. Þegar önnin er að verða búin og hún sér til lands, ákveður Magga að heimsækja vinkonu sína í Ameríku. Þar lenda þær í ævintýri sem eftir á að hyggja er alvarlegra en þær átta sig á.

Ef einhver er í nostalgíukasti yfir Verbúðinni þá er bókin mín ágætis innlegg í nostalgíuna frá þessum árum. Fólk kemst á smá tímaflakk við að lesa um hvernig heimurinn var áður en hægt var að fara í líkamsræktarstöð og hringja í farsíma eða nota kreditkort. Þarna er líka að finna smá upprifjun á stöðunni í málefnum Bandaríkjanna.“

Hvað hefur námið gefið þér?

„Námið veitti mér sjálfstraust til að halda áfram að skrifa. Ég áttaði mig betur á þar að ég gæti skrifað og lærði meðal annars að vinna textana áfram. Liggja yfir og lesa yfir, laga og breyta. Svo skrifa ég markvissar og hraðar. Ég set mér fyrir, tek mér tíma og skipulegg mig betur. Það er eitthvað sem lærist.

Ég hef áður lokið ýmsu öðru námi og fjölda námskeiða og finnst ég alltaf fá mikið út úr því. Ég hef alltaf nýtt allt mitt nám í kennslu og einkalífi, þá hef ég málað og föndrað, og núna skrifað. Nám gerir mig að betri starfskrafti og gerir vinnuna skemmtilegri.

Námið hefur líka haft áhrif á kennsluna mína. Ég kenni auðvitað alls konar greinar og nýti nú ritun á mun markvissari hátt í kennslunni, nemendum stundum til ama. Ég hef reyndar breytt miklu varðandi mína kennslu í gegnum tíðina. Í grunninn er ég jarðfræðingur og kenndi raungreinar, en hef nú bætt við mig kennslu í valgreinum tengdum nýsköpun. Ég kenni til dæmis frumkvöðlafræði núna þar sem nemendur stofna og reka fyrirtæki, og þar eru skrifaðar skýrslur. Svo er ég orðin betri í að lesa yfir texta og nú langar mig að breyta til og prófa að kenna eitthvað sem tengist beint ritlist eða þýðingum.“

Mælir með ritlist

„Ég mæli með þessu námi við alla sem hafa áhuga á að skrifa, hvernig texta sem er og í hvaða tilgangi sem er. Þetta er mannbætandi og krefjandi nám í alla staði og um leið uppbyggilegt. Mér finnst ég ótrúlega heppin að hafa rambað á þetta og fengið inni.

Það gaf mér líka ótrúlega mikið að vera í námi með hæfileikaríku og gefandi fólki, þar sem samskipti voru svo ótrúlega opin. Ég eiginlega fór á flug. Þarna voru og eru margir frábærir kennarar sem leiðbeina nemendum þannig að maður reynir að bæta sig. Ég upplifði aldrei niðurbrot heldur bara alltaf uppbyggingu.

Og að lesa alls konar texta eftir þessi hæfileikabúnt, sjá að það er pláss fyrir alls konar, það var ómetanlegt. Það þurfa nefnilega ekki allir að skrifa eins. Ég fann að það var líka pláss fyrir mig og ég varð meðvitaðri um textana sem ég skrifa, stíl þeirra og form.“

Sér eftir að hafa klárað

„Ég kláraði námið árið 2018, fyrir bráðum fjórum árum, og sé eiginlega eftir því, það var svo gaman í náminu og gefandi. Ég sé til dæmis eftir að hafa skautað fram hjá leiktextum, en það var ekki tími til að gera allt. Námið var auðvitað það skemmtilegasta sem ég hef gert um ævina. Og það var frábært að vera innan um fólk á öllum aldri sem er svo skapandi og gefandi. Það veitti mikinn innblástur að vera í náminu.“

Hvað er svo næst?

„Stefnan núna er alveg klár. Ég er bæði með þýðingu í farvatninu og svo skáldsögu, sögulega skáldsögu. Ég er búin að vera með hana í vinnslu svolítið lengi, vonandi kem ég henni út fyrr en seinna. Ég hef minnkað kennsluna til að geta skrifað, þetta er eitthvað ólæknandi, óstöðvandi.“