Ásdís hefur haft mikið að gera í sumar enda nýtekin við sem bæjarstjóri í Kópavogi og verkefnin eru mörg og ólík.

„Mínar fyrstu vikur sem bæjarstjóri hafa bæði í senn verið áhugaverðar og skemmtilegar. Ég viðurkenni þó alveg að álagið er mikið og verkefnin ólík sem ég þarf að setja mig inn í. Starfið er afskaplega fjölbreytt og ljóst að það eru spennandi fjögur ár framundan í mínu lífi. Ég hef nýtt tímann undanfarið til að kynnast starfsfólki og bæjarbúum, ég er með opna viðtalstíma á miðvikudögum þar sem ég fæ tækifæri til að heyra sjónarmið bæjarbúa og hugmyndir þeirra sem er algjörlega frábært. Í kosningabaráttunni lögðum við Sjálfstæðismenn fram hundrað loforða lista, en þar var að finna þau hundrað verkefni sem við höfðum forgangsraðað og lofuðum bæjarbúum að við myndum klára á kjörtímabilinu. Þessi loforð má finna í áherslum nýs meirihluta og ég sem bæjarstjóri legg ríka áherslu á að ganga í verkin og klára listann. Framundan eru mörg áhugaverð verkefni í Kópavogi á svo ólíkum sviðum, hvort sem snýr að skipulagsmálum, samgöngumálum, menntamálum eða menningarmálum, sem öll eiga það sameiginlegt að eru til þess fallin að bæta lífsgæði bæjarbúa og stuðla að því að gera bæjarfélagið okkar enn betra,“ segir Ásdís og er spennt fyrir framtíðinni.

Þegar kemur að því að velja hvað á að vera í matinn og útbúa hann er það eiginmaður Ásdísar sem fer þar fram fremstur í flokki en Ásdís segir að það muni þó verða breyting á því í vetur.

„Maðurinn minn sér um eldamennskuna á okkar heimili. Hann er einfaldlega betri á þessu sviði og hefur meiri áhuga á matargerð, þannig að ég úthýsi þessu hlutverk algjörlega til hans. Næsta vetur mun hann hins vegar stunda nám í sagnfræði og því er hætt við að ég muni þurfa að láta meira að mér kveða í eldhúsinu þegar álagið í náminu er sem mest.

Almennt finnst okkur það góð regla að hafa frekar hollan mat fyrri part vikunnar en þegar helgin nálgast leyfum við okkur meira „sukk“.“

Mánudagur – Fiskur

„Ekki vinsælt hjá krökkunum, einkum þar sem þau kvarta yfir því að á sama degi hafi verið fiskur í skólanum og því ákaflega ósanngjarnt að leikurinn sé endurtekinn um kvöldið. Þorskur kryddhjúpaður frá Norðanfiski kemur hins vegar sterkur inn – hann bráðnar í munni og börnin taka gleði sína á ný. Við höfum gott salat með og örlítið af frönskum. Einfalt, hollt og gott.“

Kryddhjúpaður fiskur

Þriðjudagur – Tiltekt í ísskápnum

„Síld, egg, reyktur fiskur og ýmislegt fleira hefur safnast í skápnum, ásamt grænmeti sem hefur gleymst að borða. Við hjónin fáum okkur því ristað brauð/rúgbrauð með eggi, rauðlauk og síld/silungi á meðan við útbúum pítu fyrir krakkana með eggi, grænmeti og áleggi sem kann að falla til. Með þessu hristum við okkur boost; frosin hindber, banana, spínat og avókadó, ásamt góðu vegan vanillupróteini og chia fræjum.“

Síld og Egg.jpeg

Miðvikudagur – Spaghetti með tígrisrækjum, rauðum chili, hvítlauk og aspas

„Það styttist í helgina og þá förum við að leyfa okkur örlítið meira. Þessi uppskrift er ein af mínum uppáhalds. Krakkarnir elska þennan rétt líka, þó hann sé svolítið fullorðins. Við notum hollari týpuna af spaghetti strimlum, úr baunum, sem mótvægi við annað gúrmei sem má finna í þessum rétti.“

Læknirinn í eldhúsinu á heiðurinn af þessari ljúffengu uppskrift sem vert er að fara eftir.

Tígrísrækju spaghetti af betri gerðinni

Ljúffengt spaghetti með tígrisrækjum, rauðum chili, hvítlauk og nýjum aspas

Fyrir fjóra til sex

500 g tígrisrækjur þiðnar

½ rauður chili

4 hvítlauksrif

handfylli fersk steinselja

Smáræði af basil

75 ml af hvítvíni

100 ml af rjóma

500 g spaghetti

75 g parmaostur

5-6 aspasspjót

50 g smjör

salt og pipar eftir smekk

Sjóðið pasta í nóg af vatni. Stundum er talað um 1 líter fyrir hver 100g af pasta - en það er líklega heldur yfirdrifið, en allavega - nóg af vatni. Saltið vatnið og sjóðið pastað í kraumandi vatni, lokið á ekki að vera á pottinum. Sjóðið pastað þangað til að það er al dente - eða aðeins undir tönn þegar bitið er í það það. Á meðan pastað er að sjóða, bræðið smjörið á stórri pönnu og steikið chili, hvítlauk og smávegis af steinseljunni með. Skellið svo rækjunum á pönnuna, saltið og piprið. Steikið í smástund. Hellið svo rjómanum út í. Næst er nokkurum laufum af basil bætt út í. Skellið pastanu út á pönnuna. Veltið því vel í sósunni þannig að það verði vel hjúpað. Stráið nóg af parmaosti yfir pönnuna, parmaostur gerir allt betra. Pastað þarf bara nokkrar mínútur á pönnunni og þá er það tilbúið. Skerið aspasinn í þunnar sneiðar og steikið þær upp úr smjöri í nokkrar mínútur - til að nota eins og skraut á pastað. Þá er rétturinn tilbúinn og þá er bara að njóta.

Fimmtudagur – Risarækju rauðrófu taco

„Risarækju taco frá Evu Laufey er búið að vera fastur liður í langan tíma hjá okkur. Ég fæ þann heiður að búa til avókadó salsað og restin sér um sig sjálf. Við notum að þessu sinni rauðrófu taco sem er gert úr þriðjungi úr grænmeti, frábær leið til að koma auka skammti af grænmeti ofan í börnin. - klikkar aldrei. Hægt er að nota grunni af þessari uppskrift í þennan rétt nema við notum rauðrófu taco og avókadó salsa með.“

Risarækju tacos

Risarækju tacos

Föstudagur - Pitsakvöld

„Á föstudögum er hefðin að við eldum okkar eigin pitsu, allir fá að velja sitt meðlæti. Ég fæ mér alltaf sömu pitsuna. Hún er með mascarpone ost, pepperoni, döðlum og klettasalati. Krakkarnir eru í einfaldri pepperoni pitsu en eiginmaðurinn tekur sína pitsu skrefinu lengra í frumlegheitum og er hans pitsa eins og svo oft áður þakin ansjósum. Við höfum verið að þróa okkur áfram í pitsadeigi en best finnst okkur súrdeigspitsadeig með þunnum botni.“

pitsa.jpeg

Laugardagur – Eins konar mathöll „take-away“

„Á laugardögum erum við oft með „take-away“ og það verður fyrir valinu í þessari viku. Okkar yngsti elskar sushi eins og foreldrarnir og við pöntum fjölbreyttan sushibakka, eitthvað sem hentar öllum. Eldri börnin eru hins vegar orðin þreytt á sushi svo þau velja sér hamborgara í staðinn. Sem sagt fjölbreyttur matseðill á laugardagskvöldi, þar sem allir velja sitt.“

Sushi.jpeg

Beef & Buns.jpeg

Sunnudagur - Beef bourgogne

„Ég lýg því ef ég myndi segja að þetta væri á hverjum sunnudegi, en svo er ekki. Réttur sem klikkar aldrei, meðlæti einföld kartöflumús og smjörsteiktar gulrætur.“

Hér er uppskrift sem steinliggur af þessum dásamlega rétti.

Beef haustrétturinn

Hinn fullkomin beef-boouruignon