Ásatrúarfélagið fagnar fimmtíu ára afmæli um þessar mundir en félagið var stofnað á sumardeginum fyrsta 1972. Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði segir að stofnun félagsins hafi átt sér langan aðdraganda.

„Það voru menn í kringum Sveinbjörn Beinteinsson sem höfðu farið að hittast upp úr 1960 í tíundu viku sumars á Þingvöllum,“ segir hann. „Þetta var lítill hópur fólks, flest úr Borgarfirði, sem vildi endurvekja þennan forna sið.“

Þar myndaðist ákveðinn kjarnahópur sem ákvað að stofna félag þar í kring og var haldinn undirbúningsfundur sem fór fram á Hótel Esju. Félagið var svo stofnað á Hótel Borg á sumardeginum fyrsta þann 20. apríl 1972.

„Það var talað um að það hefðu verið tíu til tólf manns sem mættu á stofnfundinn,“ segir Hilmar Örn og ber viðburðinn saman við tónlistarhátíðina Woodstock. „Rétt eins og annar hver Ameríkani sem maður hittir á ákveðnum aldri fór á Woodstock, þá var annar hver maður sem ég hef hitt á Íslandi á ákveðnum aldri á þessum stofnfundi, þótt það gangi ekki upp tölfræðilega.“

Í kjölfarið var sótt um að félagið fengi löggildingu sem fékkst þó ekki strax.

„Það var ákveðin andstaða við að fjölgyðistrú yrði leyfð á Íslandi,“ segir hann. „Það var sem sagt hægt að beita guðfræðilegum rökum á móti því.“

Félagið fékk löggildingu ári eftir stofnun og var Sveinbjörn valinn fyrsti allsherjargoði.

„Hann fékk fyrstur heiðinna manna leyfi til að gefa fólk saman, en jarðsetti þó reyndar aldrei nokkurn mann,“ segir Hilmar Örn sem útskýrir að félagar hafi orðið karla og kvenna elst á þessum tíma. „Það var mjög gott upp á heilsufarið að ganga í félagið.“

Félögum fjölgar

Í dag eru félagar í Ásatrú vel á sjötta þúsund og hefur orðið um tíföldun síðan Hilmar Örn tók við árið 2003.

„Þá vorum við í kringum 540 manns sem þótti stórkostlegt þá, því á fyrstu tíu til fimmtán árunum vorum við aldrei fleiri en hundrað. Við vorum alltaf í kringum þá tölu,“ segir Hilmar Örn og segir stökk í kringum Kristnihátíðina árið 2000. „Þá fengum við ótrúlegan fjölda fólks í félagið, sem er enn í vexti.“

Uppbygging á hofi Ásatrúarfélagsins hefur staðið lengi yfir og segir Hilmar Örn að það sé nú nánast fullklárað.

„Við fluttum inn með skrifstofuna og erum að klára félagsaðstöðuna. Við erum svo að bíða eftir starfsleyfi miðað við uppfylltar brunavarnir sem ætti að fást á næstu dögum eða vikum,“ segir hann og bætir við að verið sé að safna fyrir burðarvirki sem þurfi að panta að utan og verði að von sett upp á næsta ári. „Maður veit auðvitað ekki hversu fljótt þetta gengur yfir en við vorum gerð munaðarlaus af borgarkerfinu á sínum tíma. Við höfum lagt fyrir og ekki byggt meira en við höfum efni á á hverjum tíma.“

Árunum fimmtíu verður svo fagnað með sigurblóti og sumargleði við hofið í Öskjuhlíð og í Nauthólsvík í dag.

„Þetta verða mikil hátíðarhöld,“ segir Hilmar Örn Hilmarsson. „Við fáum víkingafélagið Rimmugýg í heimsókn, það verða blöðrur og sumargjafir handa börnum, pylsur, gos og grillaðir sykur­púðar. Það verður mikið í þetta lagt.“