Ridley Scott fer heldur frjálslega með átakasögu Gucci-fjölskyldunnar, að mati sumra, í The House of Gucci. Leikstjórinn og framleiðendur myndarinnar standa enda í deilum við meðlimi fjölskyldunnar sem hið þekkta tískuhús er kennt við.
The House of Gucci verður frumsýnd á Íslandi á föstudaginn en óhætt er að segja að hún hafi víða vakið umtal og deilur frá frumsýningu í Bandaríkjunum 24. nóvember.
Flestir kannast líklega við ítalska tískuhúsið Gucci. Í poppmenningunni er Gucci orðið eins konar samheiti yfir glamúr og gæði, tilvísanir í popptextum eru endalausar, rapparinn Gucci Mane kennir sig við merkið og sjálf fína-kryddpían, Victoria Beckham, hampaði tískuhúsinu í hástert á hátindi tónlistarferilsins og kynnti merkið fyrir nýrri kynslóð.
Orðið sjálft: Gucci, er í dag slangur yfir það sem þykir flott. Þannig má segja að Gucci þurfi líklega hvorki á auglýsingunni að halda, né kæri sig um hana, líkt og komið hefur í ljós.
Fyrir lesendur sem ekkert vilja vita um söguþráð myndarinnar kemur hér höskuldarviðvörun. En í myndinni er ævisaga Patriziu Reggiani, eiginkonu Maurizio Gucci, erfingja Gucci-veldisins, rakin. Hjónin lifðu hátt og bárust á, en skildu árið 1991 og Maurizio hóf samband við aðra konu og seldi hlut sinn í Gucci. Skömmu síðar var hann ráðinn af dögum og var Patrizia í kjölfarið sökuð um að hafa þar átt hlut að máli.
Gucci-fjölskyldan ósátt
Handritið byggir á bók bandaríska höfundarins Söru Gay Forden frá árinu 2000 en hún starfaði þá sem tískublaðamaður og var búsett í Mílanó meðan á málaferlum stóð. Hún hafði tekið viðtöl við hjónin og þekkti málið vel, en var að auki stödd í Mílanó daginn sem Maurizio var myrtur. Við vinnslu bókarinnar ræddi Forden við rúmlega 100 manns sem þekktu hjónin, í því skyni að fá sem nákvæmasta mynd af atvikum. Forden starfaði sem handritsráðgjafi við vinnslu myndarinnar.
Gucci-fjölskyldan hefur verið harðorð í garð leikstjórans og sakað hann um að notfæra sér ímynd og sögu fjölskyldunnar í gróðaskyni. Hinn 83 ára gamli Ridley Scott svaraði fyrir sig jafnharðan, sagðist lítið gefa fyrir þær ásakanir og bað fólk að hafa í huga að Maurizio hefði verið myrtur á meðan annar fjölskyldumeðlimur fór í fangelsi fyrir skattalagabrot, og því þýddi lítið fyrir þau að kvarta yfir gróðabraski. Að um leið og fólk fremdi slíka glæpi yrði saga þess opinber gögn.
Lady Gaga eins og Gorbatsjev
Leikhópur myndarinnar hefur vakið mikla athygli, en það er ameríska söngdívan Stefani Germanotta, betur þekkt sem Lady Gaga, sem fer með aðalhlutverkið. Eins og glöggir poppunnendur vita þá er söngkonan af ítölskum ættum. Nokkuð hefur verið rætt um hreiminn sem hún notar í myndinni. Fabio Vassallo hjá ítalska ríkisjónvarpinu fullyrðir því til stuðnings að hún hljómi eins og Sovétleiðtoginn fyrrverandi Mikhail Gorbatsjev, en í ítölskum eyrum þykir hreimurinn svipa til þess rússneska.
Adam Driver og Jared Leto leika önnur aðalhlutverk, en ljósmyndir af hinum síðarnefnda í gervi Paolo Gucci hafa farið eins og eldur í sinu um netheima, en leikarinn er nánast óþekkjanlegur. Þá fara Salma Hayek, Al Pacino og Jeremy Irons einnig með hlutverk í myndinni.

