Hjónin Aron Einar Gunnarsson og Kristbjörg Jónasdóttir tilkynntu í dag að þau ættu von á þriðja barni sínu en fyrir eiga þau tvo syni.

Aron og Kristbjörg tilkynntu þetta á Instagram-síðum sínum í dag með myndum þar sem drengirnir þeirra, Tristan Þór og Óliver Breki halda á skilaboðum um tilvonandi systkyni.

Fyrr á þessu ári ræddu hjónin lífið í Katar í samtali við Fréttablaðið sem sjá má hér en þau hafa verið gift í tæp þrjú ár.

Aron og Kristbjörg eru búsett í Katar þessa dagana þar sem Aron sem er einnig fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu leikur með Al Arabi.

Kristbjörg gerði það gott í fitness-heiminum á sínum tíma þar sem hún vann til þó nokkurra verðlauna bæði heima og erlendis.

Þau byrjuðu með snyrtivörulínu fyrr á þessu ári sem ber heitið AK Pure Skin.

Aron er ekki eini leikmaður karlalandsliðsins sem á von á barni því Albert Guðmundsson og Hörður Björgvin Magnússon eiga einnig von á börnum með unnustum sínum.