Útvarp Saga átti fulltrúa á upplýsingafundi almannavarna í fyrsta skipti í gær og var þar útvarpsstjórinn sjálfur, Arnþrúður Karlsdóttir, mætt.

Hún segist hafa fylgst vel með fundunum hingað til þótt hún hafi ekki verið þar í eigin persónu. Þá hafi hún með glöðu geði útvarpað fundunum beint á stöð sinni.

„Mér fannst hins vegar nauðsynlegt að koma með spurningar núna, af því að mér finnst svo mikið ósamræmi í upplýsingum,“ segir Arnþrúður. Hún bætir við að hún sé ekkert sérlega hress með svör sóttvarnalæknis við spurningum hennar, sem hún gat ekki fylgt eftir, þar sem Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn þurfti að stöðva hana þegar hún reyndi að fylgja eftir því sem hún telur gagnrýna spurningu um bólusetningar og hvers vegna Þórólfur Guðnason hefði ákveðið að upplýsa þjóðina ekki um að hún væri að taka þátt í lyfjatilraun.

Þórólfur sagði þvert á móti ekki um neina lyfjatilraun að ræða, enda bóluefnin rannsökuð í bak og fyrir og markaðsleyfi gefið út, og Arnþrúður er gáttuð.

„Vísindasiðanefnd vísaði mér á Þórólf þegar ég spurði hvers vegna þau hefðu ekki gefið álit á þeim aðgerðum sem eru í gangi,“ segir Arnþrúður og vísar einnig til samninga sem gerðir hafi verið um bóluefnakaup.

„Mér finnst óeðlilegt að hann hafi ekki lesið samninginn, þar sem kemur skýrt fram að um tilraun sé að ræða,“ segir Arnþrúður, sem segist hvergi af baki dottin og ætlar að mæta á næsta upplýsingafund. „Ég sé fram á að sitja fleiri upplýsingafundi í framtíðinni.“