Leikarinn Arnmundur Ernst Backman skorar á Eyþór Arnalds í sjómann til að útkljá hvort prótínmagn í vegan fæðu sé ábótavant. „Ég hef verið vegan í ca. 4 ár. Ég skora hér með formlega á þig í sjómann og þá getum við skorið úr hvort prótínmagn í veganfæðu sé raunverulegt vandamál,“ segir Arnmundur í færslu á Facebook.

Eyþór er ekki sam­mála til­lögu skóla og frístundasviðs um að minnka fram­boð á dýr­af­urðum í grunn­skólum borgarinnar. Hann segir á Facebook að meiri­hlutinn, eða „vinstri menn í borgar­stjórn“ ættu að byrja á að huga að þeim sjálfum áður en þeir ræða um að minnka kol­efnis­fót­spor með þessum hætti.

Spara kjöt og fisk fyrir börnin

„Skóla­matur í Reykja­vík gæti verið betri. Um það eru flestir sam­mála. En í stað þess að bæta matinn í grunn­skólum ætla fulltrúar "meiri­hlutans" í borgar­stjórn að skerða prótín­inni­hald fyrir reyk­vísk skóla­börn!“ kom einnig fram í færslu Ey­þórs.

„Það á að spara kjöt og fisk fyrir börn. Í nafni um­hverfis­verndar. Nú er það svo að best er að borða úr sínu nær­um­hverfi. Og það vill svo til að fiskur og kjöt á Ís­landi er í sér­flokki," segir hann enn fremur og bætir við að frekar sé við hæfi að ef „vinstri menn í borgar­stjórn vilji minnka kol­efnis­sporið væri við hæfi að þeir byrjuðu á sjálfum sér“.

Með færslunni birtir Eyþór mynd af sér í bol með áletruninni "Kjöt", og í athugasemdum setur hann mynd af matardisk með silungi og eggjum og skrifar: „já takk“.