Að mati Arnars Eggerts hefur dómnefnd Íslensku tónlistarverðlaunanna tekist vel upp þetta árið að gera landslagi tónlistarsenunnar skil, og nefnir að vissulega séu þó alltaf einhverjir sem kvarta undan því að ákveðna listamenn vanti. „Mér finnst þetta fljótt á litið nokkuð vel afgreitt. Ég er ekki búinn að finna neina gloppu. Auðvitað er einhver sem býsnast við: Afhverju var þetta ekki tilnefnt og þetta og hitt ekki tilnefnt. Ég bara sé það ekki. Það er farið þarna sæmilega yfir sviðið,“ segir hann.

Þó er um að ræða nýjan flokk þetta árið, einskonar samsuðu-flokk þar sem popp-, rokk-, hiphop- og raftónlist. „Það má alveg velta fyrir sér þessum flokkum, ég hef sjálfur talað um að það sé of flókið að hafa einn popp-flokk, einn rokk flokk og einn svona. En nú er ég farin að backtrakka þegar ég sé þennan flokk þar sem öllu er dembt saman – ég veit ekki.“

Einkenni góðrar plötu

Aðspurður um hvað einkenni góða plötu svarar hann: „Það er svo erfitt að mæla þetta en ég leita alltaf eftir því, þegar ég er að gagnrýna plötur, hvaðan ertu að koma sem listamaður, hvar er hjartað og hvaðan ertu að koma. Iron Maiden eru búin að gefa út sömu plötuna í 20 ár, og hvað með það. það er líka hægt að líta á það sem fallega list að vera að catera til aðdáenda.“

Arnar Eggert var gestur í Fréttavaktinni á Hringbraut föstudaginn 10. mars 2023.