Að lágmarka skjásuðið

„Sé stokkurinn innan handar geta foreldrar boðið uppá annan valmöguleika. Afvegaleitt pirringinn og boðið barni að draga spil eða leik. Ég lofa stemmningu og geðtengslamyndun þar sem allir njóta góðs af,“ segir í lýsingu við spilið „Hvað í pabbanum ert þú að gera,“ sem Arnar Dan Kristjánsson leikari hefur hannað, ekki síst í sóttkví með börnunum.

Spilið sem Arnar hefur búið til inniheldur 190 leiki sem auðvelt er að grípa í heima við þegar barnið er á skjásuðinu, svokallaða. Margrét Erla heimsótti Arnar eins og sjá mátti á Fréttavaktinni á Hringbraut.

Arnar segir: „Þetta eru einhvers konar viðbrögð við atvinnuleysi. Þar sem þú ferð inn á við og reynir að skilgreina hvað er er mikilvægt í tilverunni og hvað þig langar að gera meira af og hvað þig langar að gera minna af,“ segir Arnar um spilið.

Arnar segir að hann hafi fljótt komist að því að honum finnist skemmtilegast að vera með vinum sínum og að leika sér.

Frá mótorhjóli yfir það að perla

„Það getur átt sér margar myndir. Að fara út á mótorhjóli upp á hálendi og niður í að perla. Strákarnir mínir eru svo nánir mér og mig langaði að efla okkar samband og þessi hugmynd „Hvað í pabbanum ertu að gera“ er eiginlega komin frá því, að þú færð eitthvað barn í hendurnar og hugsar strax hvernig þú eigir eiginlega að fara að þessu,“ segir Arnar.

Hann segir að það hugsi líklega allir foreldrar um þetta, hvernig sé hægt að hugsa um börnin án þess að skaða þau og vera til staðar til að styðja við þeirra tilfinningar og hugsanir og skila þeim til manns.

„Það er það sem ég vildi gera og ég hugsaði þá: „Hvað kann ég?“

Arnar Dan tók málin í sínar hendur
Mynd/Hringbraut

„Ég kann að skítamixa og leika mér og ég fór þá bara að búa til leikina út frá því. Stuttu eftir það fór ég að birta leikina á Instagram og fékk mikil og góð viðbrögð,“ segir Arnar en það hafi bara verið brot af því sem hann bjó til enda í heildina hafa leikirnir verið vel yfir tvö hundruð talsins.

Erfið staða foreldra

Hann segir að foreldrar séu margir í erfiðri stöðu hvað varðar skjáina, síma, tölvu og sjónvarps.

„Þessi innrás er raunveruleg og áþreifanleg og maður finnur fyrir ergelsi barnanna og maður stjórnar því eiginlega ekki lengur hvað þau eru að horfa á. Þau róterast í gegnum YouTube og eru komin með einhverjar upplýsingar sem maður hefur enga yfirsýn yfir. Mig langaði að lágmarka þann tíma og hámarka tímann með þeim,“ segir Arnar.

Hann segir að hann hafi fljótt komist að því að með því að planta þeim fyrir framan sjónvarpið var hann ekki að fá frí endilega. En með því að planta sér inn í leik drengjanna þá hafi hann klárað daginn hlaðinn orku.

„Þetta er eins og að fara í ræktina þreyttur en kemur endurhlaðinn út,“ segir hann.

Í stað þess að kveikja á sjónvarpinu

Það hafi verið áþreifanlegt hvað breyttist eftir að hann fór að búa til leikina og strákarnir hans hafi verið byrjaðir að spyrja hver leikur dagsins væri í stað þess að vilja kveikja á sjónvarpinu.

„Ég þurfti alltaf að hugsa hratt,“ segir Arnar.

Synir Arnars njóta þess að leika fjölbreytta og heimatilbúna leiki
Mynd/Hringbraut

Að teipa hausinn á pabba

Leikirnir eru ólíkir, sumir taka aðeins nokkrar mínútur á meðan aðrir taka lengri tíma. Arnar segir að stundum þurfi líka að draga nokkur spil því það sé ekki gefið að það sé allt til á öllum heimilum sem þurfi til að spila alla leikina.

„Eins og ef leikurinn er að „teipa“ hausinn á pabba og það er ekki til málningarteip þá bara er dregið annað spjald,“ segir hann.

„Rykið undir rúminu“ er góður leikur

Hann tekur annað dæmi um leikinn „Rykið undir rúminu“ þar sem þátttakendur sópa rykinu undan rúminu, setja það saman í bolta og kveikja í því úti. „Það tekur kannski ekki langan tíma en það er spennandi á meðan því varir,“ segir Arnar og hlær. Hann segir að leikirnir hafi margir þróast í samvinnu við strákana eftir hugmyndum þeirra. Verkefnið er enn í þróun og stefnir Arnar á að gefa spilið út fyrir næstu jól.

„Þetta er frekar mikil vinna og ég er í fullri vinnu við það í dag og mér finnst það mjög skemmtilegt,“ segir Arnar.

Á Karolinafund er hægt að styrkja framleiðslu spils Arnars.