„Napóleonsskjölin er ekki svona sósíalrealískur norrænn krimmi eins og margar aðrar bækur mínar heldur sögulegur og alþjóðlegur þriller sem teygir anga sína til síðari heimsstyrjaldarinnar,“ segir Arnaldur.

„Bíómyndin tikkar í öll þau box með hraðri atburðarás og óvæntum vendingum svo að úr verður fínasta skemmtun,“ segir rithöfundurinn sem ætti að vita hvað hann syngur eftir að hafa verið kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins árum saman áður en hann söðlaði um og hóf glæstan rithöfundarferil.

Stór stund

„Það var óneitanlega stór stund að vera viðstaddur forsýningu á Napóleonsskjölunum í gærkvöldi,“ skrifaði Pétur Már Ólafsson, bókaútgefandi hjá Bjarti og Veröld, á Facebook eftir að hafa séð frumsýningu Napóleonsskjalanna á þriðjudagskvöld.

Pétur Már gaf Napóleonsskjölin út á sínum tíma og upplifði stóra stund á forsýningunni á þriðjudagskvöld.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Þetta var þriðja bókin sem við hjá Vöku-Helgafelli gáfum út eftir Arnald (1999) en þá var ég útgáfustjóri þess ágæta forlags. Viðtökur við fyrstu tveimur bókunum höfðu verið frekar dræmar en Napóleonsskjölin voru allt annars eðlis, hreinræktuð spennusaga.

Mér fannst sem bókin hlyti að enda á hvíta tjaldinu og snemma árs 2001 gengum við frá samningi um kvikmyndum bókarinnar, á sama tíma og við seldum bíóréttinn á Mýrinni en með þeirri bók sló hann rækilega í gegn. Síðan eru liðin mörg ár, eins og segir í kvæðinu. Og nú er kvikmyndin orðin að veruleika og er frábærlega heppnuð. Hreinræktuð hasarmynd með spennu og húmor.“

Hlustað á skjölin

Ólíkt flestum bókum Arnaldar eru Napóleonsskjölin ekki til sem hljóðbók en fæst hjá Forlaginu, útgefanda Arnaldar í seinni tíð, bæði rafrænt og í kilju auk þess sem bókin er aðgengileg sem rafbók á Storytel. Napóleonsskjölin eru hins vegar væntanleg á hljóðbók síðar í mánuðinum en enn sem komið er hvílir leynd yfir því hver sér um upplesturinn. Stefnt er að því að hljóðbókin verði fáanleg bæði í hljóðbókaappi Forlagsins sem og hjá Storytel.