„Það var góður fílíngur í hópnum enda verkefnið skemmtilegt. Mikil aksjón,“ segir Óskar Þór Axelsson, leikstjóri spennumyndarinnar Napóleonsskjölin sem verður frumsýnd eftir rúma viku.

Myndin byggir á þriðju skáldsögu Arnaldar Indriðasonar sem kom út 1999 og segir frá Kristínu, lögfræðingi í utanríkisráðuneytinu, sem stofnar lífi sínu og limum í stórhættu þegar hún fer að grafast fyrir um mál sem kemur upp í kjölfar þess að gamalt flugvélarbrak kemur upp úr ísnum í Vatnajökli.

Aðalleikkonan Vivian og Arnaldur í góðum fílíng á tökustað þegar rithöfundurinn leit við og gaf af sér góða móralska orku.
Arnaldur kom með móralska orku í hasarinn

Óskar segir Arnald síður en svo hafa andað ofan í hálsmálið á honum við gerð myndarinnar, en hann hafi átt hann sem hauk í horni til skrafs og ráðagerða þegar svo bar undir.

„Hann svona pínu læddist inn og út en hafði gaman af því að koma og vera með okkur,“ segir Óskar, þegar hann rifjar upp heimsókn Arnaldar á tökustað. „Hann gaf okkur góða móralska orku með nærveru sinni,“ segir leikstjórinn einnig um annálað hógværan rithöfundinn.

Óskar segir myndina ekkert taka sig neitt súper hátíðlega, sem hafi gefið honum og leikurunum svigrúm til þess að bregða á leik. „Eins og sést bara á þessum búningum sem Darri og Vivian eru í.“

Vivian, Darri og Jack Fox, sem leikur Steve Rush, á leið í tökur í stúdíói í Köln í Þýskalandi.

Óskar segir Ólaf Darra hafa verið manna hressastan í tökunum enda í skemmtilegu aukahlutverki og laus undan þeirri kunnuglegu ábyrgð að þurfa að vera með allt á herðum sér.

„Hann kemur mjög sterkur inn í myndina og er alveg í essinu sínu. Þetta er skemmtilegur karakter, pínu ýktur og þá er hann bara hlæjandi allan daginn. Hann sérstaklega hafði gaman að þessu,“ segir Óskar, sem hefur þekkt leikarann lengi og leikstýrði honum til dæmis í nokkrum Ófærðarþáttum.

:Óskar fer yfir málin með Darra og skoska leikaranum Iain Glen, sem er sjálfsagt þekktastur hér á landi sem Game of Thrones-kempan Jorah Mormont. „Glen er mikill sögumaður og lúmskur grínisti,“ segir leikstjórinn.