Arnaldur Indriðason hlaut í dag Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Verðlaunin eru veitt árlega á degi íslenskrar tungu, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, og eru ætluð þeim einstaklingi sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu til hags í skáldskap, fræðimennsku eða öðrum störfum.

Í rökstuðningi verðlaunanefndar segir meðal annars að Arnaldur „hafi í verkum sínum fléttað saman gamalt og nýtt með listilegum hætti. Hann tileinkaði sér form glæpasögunnar og nýtti það til að kafa í sögu einstaklinga og þjóðar, greina þjóðfélagsmein og rekja sig að rótum þeirra sem oft liggja djúpt í menningu okkar. Bækur hans hafa um langt skeið notið gríðarlegra vinsælda meðal ungra sem aldinna úr öllum stéttum íslensks þjóðfélags og þar með gegnt mikilvægu hlutverki í að viðhalda og auka lestraráhuga þjóðarinnar svo um munar.“

Frjótt og fallegt mál

Þá er einnig veitt sérstök viðurkenning á degi íslenskrar tungu sem í ár hlýtur Vera Illugadóttir, dagskrárgerðarkona á RÚV. Í rökstuðningi nefndarinnar eru þættir Veru, Í ljósi sögunnar, sagðir höfða til fólks á öllum aldri og með mismunandi áhugasvið.

„Með grípandi framsetningu söguefnis hverju sinni nær Vera eyrum hlustenda vítt og breitt um samfélagið. Hún segir sögur sínar á frjóu og fallegu máli og miðlar fróðleik sínum á tilgerðarlausan en áhrifaríkan hátt.”

Vera stýrir þáttunum Í ljósi sögunnar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari