Í Kyrr­þey er eftir­launa­lög­reglu­maðurinn Kon­ráð enn að velta fyrir sér hver drap föður hans. Hann kemst á snoðir um lög­reglu­rann­sókn á gamalli byssu sem virðist hafa verið notuð til að drepa ungan mann á sjöunda ára­tugnum og fer sjálfur að rann­saka málið sem, ekki ó­svipað og í síðustu bók, reynist tengjast honum sjálfum og hans for­tíð. Í fram­haldi af því rifjast upp for­tíð hans í löggunni, hvernig reynt var á heiðar­leika hans og hvernig gamall fé­lagi reyndist ekki allur þar sem hann var séður.

Höfundar­ein­kenni Arnaldar eins og tíðar­anda- og staðar­lýsingar bregðast ekki frekar en fyrri daginn og bókin er að vanda skrifuð á ein­stak­lega fal­legri og ríku­legri ís­lensku. Um­fjöllunar­efnin eru dimm, barna­mis­notkun og for­dómar gegn sam­kyn­hneigðum auk þess sem nemesis Kon­ráðs, sið­blindi og glæpa­hneigði læknirinn Gústav, kemur við sögu. Og auð­vitað er morðið á Seppa föður Kon­ráðs enn ó­leyst.

Lang­dregin og ruglings­leg

Kyrr­þey er svo til beint fram­hald af Þagnar­múr sem kom út fyrir tveimur árum og les­endur sem ekki muna ná­kvæm­lega plottið í þeirri bók eða lásu hana ekki eða hinar bækurnar um Kon­ráð vantar heil­mikla bak­sögu. Að­dá­endur Kon­ráðs fá hins vegar góðan skammt af þráða­festingum og skýringum.

Frá­sögnin er oft lang­dregin og ruglings­leg og stundum fær lesandinn á til­finninguna að meira hafi verið lagt upp úr því að bókin væri nógu löng en að inni­haldið héldi. Sér­kenni­legt og frekar ó­mark­visst daður við handan­heima virkar svo­lítið út úr kú og hefði alveg mátt missa sín, verður reyndar til­efni til ansi grafískra ó­hugnaðar­lýsinga sem kannski hefðu bara átt að fá sér­staka bók.

Kyrr­þey er ekki besta bók Arnaldar Indriða­sonar. Sagan er vissu­lega ekki fyrir­sjáan­leg og plottið er vel ofið en það er ekki alveg nógu á­huga­vert til að ríg­halda lesandanum.

Ríg­heldur ekki lesanda

Kyrr­þey er ekki besta bók Arnaldar Indriða­sonar. Sagan er vissu­lega ekki fyrir­sjáan­leg og plottið er vel ofið en það er ekki alveg nógu á­huga­vert til að ríg­halda lesandanum. Kon­ráð og fé­laga vantar ein­hvern sjarma og tenginguna við lesandann sem Er­lendur og starfs­lið hans hafði og varð til þess að lesandinn fyrir­gaf plott­göt og per­sónu­leiðindi fyrir fréttir af gömlum góð­kunningjum.

Sagan flakkar milli þriggja tíma­plana og stundum þarf að fletta fram og til baka til að finna hver er hver og hvað er að gerast, gríðar­margar og mis­minnis­stæðar per­sónur eru kynntar til sögunnar þó höfundurinn gefi þeim reyndar iðu­lega ó­al­geng nöfn svo þær festist betur í minni.

Arnaldur Indriða­son er frá­bær rit­höfundur, um það þarf enginn að efast. En ekki allar bækur bestu rit­höfunda geta verið bestu bækur þeirra. Stundum má velta fyrir sér hvort frá­bærir höfundar þurfi endi­lega að koma með bók á hverju ári, hvort þeim sé stundum meiri greiði gerður með því að hvílast eina ver­tíð og koma svo fíl­efldir inn á næsta ári. En eins og ein­hver sagði þá þarf fólkið sinn Arnald og það fær hann í ár sem endra­nær.

Niður­staða: Ekki besta bók Arnaldar en að­dá­endur fá sitt­hvað fyrir sinn snúð.