Þagnarmúr

★★★½

Arnaldur Indriðason

Útgefandi: Vaka-Helgafell

Fjöldi síðna: 303

Það koma ekki jól hjá þúsundum Íslendinga án þess að þeir fái skriðið saddir og sælir upp í rúm á jólanóttina með nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar. Að minnsta kosti ef marka má sölutölur undanfarinna 20 ára en hann er langsöluhæsti höfundur landsins og afburðavinsæll langt út fyrir landsteinana. Enda ekki að undra þar sem Arnaldur skrifar spennandi glæpasögur sem eru samt oft svo miklu meira, samfélagsspeglar, tíðarandaþeytivindur og samviskusigti sem fara með lesandann svo miklu víðar en hefðbundnar glæpasögur, með fullri virðingu fyrir þeirri ágætu bókmenntagrein.

Nýja sagan, Þagnarmúr, kemur við á nokkrum tímaplönum en gerist þó helst annars vegar í byrjun sjöunda áratugarins og hins vegar í nútímanum. Konráð Jósepsson, lögreglumaður á eftirlaunum sem er dyggum lesendum Arnaldar undanfarin ár að góðu kunnur, heldur áfram að rannsaka andlát föður síns en hefur jafnframt brennandi áhuga á þeim glæpamálum sem rekur á fjörur lögreglunnar. Hann verður því forvitinn þegar lík finnst múrað inn í vegg í húsi þar sem íbúar hafa gegnum tíðina fundið fyrir ókennd en verður ekkert ágengt í að fá upplýsingar um málið. Fléttan vindur sig fimlega úr þessum tveimur ólíku þráðum og fleiri og seilist einnig í nokkra eldri úr öðrum bókum, þannig að úr verður heillandi, átakanleg og áhrifamikil glæpaskáldsaga af bestu gerð eins og Arnaldar er von og vísa.

Eitt helsta höfundareinkenni Arnaldar sem gerir hann að svo góðum rithöfundi sem raun ber vitni, fyrir utan góðar sögufléttur og persónusköpun, er lýsing hans á tíðaranda og Reykjavík sem var. Það nýtur sín vel í þessari bók, Reykjavík í upphafi sjöunda áratugarins stendur ljóslifandi fyrir hugskotssjónum og speglast einnig í þeim stöðum og svæðum sem Konráð heimsækir í nútímanum.

Fléttan í þessari bók minnir stundum á Grafarþögn sem kom út árið 2001. Heimilisofbeldi kemur við sögu, eins og raunar í fleiri bókum höfundar, sem og börn sem verða fyrir áföllum og ofbeldi og fara út í lífið með minni forgjöf en önnur. Leyndarmálin sem afhjúpast eru óhugnanleg en ekki óraunveruleg, því miður. Slíkar sögur eru Arnaldi hugleiknar og hann setur sig ekki úr færi að segja þær og minna okkur á myrkrið sem býr á meðal okkar og nær út fyrir söguheiminn og inn í raunheima.

Þagnarmúr er Arnaldur í essinu sínu. Kannski fellur hún ekki alveg í flokk með hans allra bestu bókum en hún er vissulega vel þess virði að vaka yfir henni á jólanótt.

Niðurstaða: Arnaldur í essinu sínu, þéttofin flétta og rofnir þagnarmúrar hleypa leyndarmálum fram í dagsljósið.