Bjarni Harðarson, hjá bókaútgáfunni Sæmundi, sagði þannig í Fréttablaðinu að hann þyrfti að fresta útgáfu tíu jólabóka vegna pappírsskorts. „Maður sér að jólabókaflóðið, það verður seinna á ferðinni heldur en venjulega og það gæti líka orðið minna að þessu sinni,“ sagði Bjarni við Fréttablaðið á fimmtudaginn.

Aðdáendur Arnaldar Indriðasonar hafa þó ekkert að óttast og nýjasta glæpasaga hans kemur, venju samkvæmt, stundvíslega út mánudaginn 1. nóvember.

„Fagfólkið á Forlaginu var löngu búið að sjá þetta fyrir og tryggja að ekkert kæmi í veg fyrir glæstasta jólabókaflóð útgáfunnar frá upphafi,“ segir Egill Örn Jóhannsson, forstjóri Forlagsins. „Og að sjálfsögðu verður því Arnaldur með brakandi ferska bók þann 1. nóvember!“