Arna Ýr Jóns­dóttir, fegurðar­drottning og sam­fé­lags­miðla­stjarna, hefur verið læst úti af Insta­gram að­gangnum sínum og þá hótar hakkarinn henni að hann muni eyða að­gangnum eða selja hann til ein­hvers annars. Í sam­tali við Frétta­blaðið biðlar Arna til al­mennings um ráð og segist ekki vita hvað hún eigi til bragðs að taka.

„Ó nei það gengur ekki neitt,“ segir Arna þegar hún er spurð út í hvort málin hafi leysts. Arna setti fyrr í dag færslu inn á Face­book hópinn Markað­s­nördar þar sem hún óskaði ráða en segir að enn sem komið er hafi ekkert virkað.

„Ég er læst úti, ætli ég sé bara ekki lengur á­hrifa­valdur,“ segir Arna létt í bragði. „Ég er senni­lega bara lögst í helgan stein eins og þetta lítur út. Ég er ekki bjart­sýn,“ segir Arna sem segist ekki hafa hug­mynd um hvernig hakkarinn komst yfir að­ganginn.

„Ég hef senni­lega ekki verið með nægi­lega læstan að­gang, það eru margir að nota svo­kallað tvö­falt aut­henti­cation,“ segir hún. „Ég er að vonast eftir því að ef ein­hver sem er klár að lesa þetta að þá hafi við­komandi kannski sam­band við mig,“ segir Arna og viðurkennir að hún viti ekki hvert hún eigi að snúa sér.

Hakkarinn hefur verið að senda henni tölvu­pósta í dag þar sem hann krefst svara. „Þetta er alveg bru­tal. Hann er alltaf að senda mér annars slagið skila­boð og er að, hvað segir maður? Black­ma­ila mig. Ef ég svara honum ekki eyðir hann myndum og hótar því að selja Insta­gramið til ein­hvers annars,“ segir Arna.

„Svo var hann að segja við mig áðan, „Ég sé að þú ert að opna skila­boðin mín en lest þau ekki svo þú greini­lega þarft ekki á þessu Insta­grami að halda, þannig ég ætla bara að byrja að deleta því, goodbye.“

Arna segir spurð halda að hann vilji pening en tekur fram að hún hafi ekki þorað að svara honum. „Ég bjóst ekki við þessu, það eru bara fullt af ein­hverjum ung­barna­myndum á Insta­graminu mínu. Ég bjóst ekki við því að ein­hver myndi hafa það í sér að fara að hakka ein­hverja ný­bakaða móður.“

Fréttablaðið/Skjáskot