Árleg byssusýning Veiðisafnsins á Stokkseyri verður haldin nú um helgina en sýning hefur verið haldin frá árinu 2004 eða frá því að safnið var formlega opnað, sýning fer fram um miðjan mars ár hvert. Í ár verður sýningin í samvinnu við Gallery Byssur/Byssusmiðju Agnars að sögn Páls Reynissonar forstöðumanns safnsins.

" Ég hef staðið fyrir þessu frá því að safnið var opnað og alltaf á sama tíma. Það fyllist allt hérna þessar helgar af áhugamönnum um byssur og skotveiði."  Á sýningunni verður mikið úrval skotvopna frá Gallery Byssur/Byssusmiðju Agnars og úrval af búnaði til skotveiða ásamt sjónaukum og aukabúnaði sem er bæði til sýnis og sölu. Margar tegundir skotvopna verða til sýnis, haglabyssur, rifflar, skammbyssur, herrifflar ásamt ýmsu tengdu skotveiðum. 

Sýning á einkamunum Sigmars B. Haukssonar 

Auk skotvopna er fjöldi muna úr einkasafni Sigmars B. Haukssonar heitins,fjölmiðlamanns og fyrrum formanns Skotveiðifélags Íslands, til sýnis. En hvernig skyldi standa á því að hans einkamunir séu nú á Veiðisafninu? " Sigmar lést langt um aldur fram, við höfðum þekkst lengi en við störfuðum saman á RÚV um árabil og svo tengdumst í gegnum áhuga okkar á skotveiði. Sýning á hans einkamunum var sett upp í samstarfi við fjölskyldu Sigmars honum til heiðurs. Hér eru líka til sýnis skotvopn og munir fjölda þekktra skotveiðimanna eins og Sverri Scheving Thorsteinssyni, Sigurði Ásgeirssyni, Einari frá Þverá, Sveini Einarssyni frv.veiðistjóra,og Drífu-haglabyssur frá Jóni Björnssyni heitnum frá Dalvík svo eitthvað sé nefnt."

Páll er sjálfur afkastamikill veiðimaður og fer ósjaldan til Afriku á veiðar eins glöggt má sjá á Veiðisafninu þar sem er fjölbreytt safn dýra sem að hann hefur fellt á ferðum sínum. 

"Ég fór síðustu ferð árið 2016 þá á antilópuveiðar og það sem var fellt í þeirri ferð er nú þegar komið upp í safninu og gestir á byssusýningunni geta barið dýrin augum," segir Páll og vill bæta því við að  sérstakir gestir sýningarinnar verði félagar úr Skotíþróttafélag Suðurlands – SFS og munu félagsmenn sýna byssur í eigu félagsmanna SFS og kynna félagið sem og aðstöðu SFS. Einnig mun ný stjórn SKOTVÍS verða á staðnum og kynna starfsemina.