Nýsköpun og frumkvöðlastarf hefur lengi fylgt Jóhanni Pétri Malmquist, prófessor emeritus við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Jóhann lét af störfum árið 2019, þá sjötugur að aldri, en heldur þó áfram að kenna uppáhaldsnámskeiðið sitt, „Frá hugmynd að veruleika“, auk þess sem hann tekur þátt í mörgum spennandi verkefnum tengt frumkvöðlum og nýsköpun. Hann verður 72 ára síðar á árinu og finnst sjálfum nauðsynlegt að nýta betur menntun, þekkingu og reynslu eldra fólks hér á landi. „Það á alls ekki bara að horfa á aldur fólks heldur líka getu, þekkingu, reynslu og kraft einstaklinga þegar kemur að nýsköpun. Menn hætta sannarlega ekki að fá hugmyndir þegar 70 ára aldrinum er náð eins og mörg dæmi sanna.“

Fyrrnefnt uppáhaldsnámskeið Jóhanns skipar eðlilega stóran sess í lífi hans en hann hóf að þróa það um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. „Þar hafa nemendur hjálpast að við að þróa hugmyndir sínar en sumar þeirra hafa endað sem fullbúnar vörur og jafnvel á alþjóðlegum mörkuðum. Ég er mjög stoltur af þeim árangri sem sumir nemenda minna hafa náð þar.“

Mörg spennandi verkefni

Hann lætur þó ekki nægja að hjálpa ungu fólki við að þróa hugmyndir sínar heldur tekur hann þátt í mörgum spennandi verkefnum. „Undanfarin þrjú ár hef ég til dæmis unnið með Eiði Möller, fyrrverandi nemanda mínum, að nýstárlegu verkefni sem hann átti hugmyndina að. En eins og ég kenni nemendum í nýsköpun, segið sem minnst um verkefnið fyrr en þið getið sýnt árangurinn. Mér þykir líklegt að við getum sýnt nýjan samfélagsmiðil í tónlist í sýndarveruleika og á öðrum miðlum síðar á árinu. Einnig hef ég unnið með fyrirtækinu Retina Risk sem gengur mjög vel en það er að þróa góða lausn fyrir þá sem þjást af sykursýki.“

World Summit Awards er alþjóðleg stofnun sem tengist Sameinuðu þjóðunum og hefur Jóhann unnið með þeim í um áratug. „Það er mjög áhugavert og fróðlegt að kynnast nýsköpunarverkefnum frá mörgum löndum í heiminum. Svo er ég einnig að leiðbeina ýmsum aðilum sem eru með góðar og nýstárlegar hugmyndir.“

Fékk háan háskólastyrk

Jóhann hefur komið víða við á löngum náms- og starfsferli sínum. Eftir stúdentspróf fékk hann styrk til að stunda háskólanám við elsta háskóla Wisconsin-ríkis í Bandaríkjunum. „Ég man helst hvað ég var hissa á skólafélögum mínum sem töluðu af mikilli virðingu um fyrirtæki. Á þessum árum var ekki talað af mikilli virðingu um fyrirtæki á Íslandi og ef þeim gekk vel þá var eitthvert svindl eða klíkuskapur í gangi. Um sumarið fékk ég sumarvinnu hjá IBM á Íslandi og eftir að hafa unnið fyrir Jakob Jakobsson fiskifræðing, sem var að reyna að skilja af hverju síldin hvarf, vann ég að ýmsum viðskiptaverkefnum.“

Hann lauk BS-prófi í stærðfræði og eðlisfræði í janúar 1973 og var fyrsta stóra verkefni hans að hanna og forrita launakerfi fyrir nýja litla tölvu frá IBM. „Enn lék lánið við mér því ég fékk mjög háan styrk frá IBM World Trade til að stunda doktorsnám í tölvunarfræði í Bandaríkjunum. Ég valdi Penn State-háskólann sem var mjög sterkur í stærðfræðilegri tölvunarfræði sem ég hafði mestan áhuga á. Áhugi minn breyttist þegar ég sá hina miklu þróun sem var að eiga sér stað í gagnasafnsfræði og fjölluðu rannsóknir mínar um hvernig best væri að skipuleggja gagnasöfn svo að hægt væri að svara fyrirspurnum notenda á sem skemmstum tíma. Rannsóknir mínar komu sér vel þegar ég fékk vinnu hjá IBM T.J. Watson Research Center í New York við að gera nýtt gagnasafnskerfi Query-By-Exaple hraðvirkt.“

Mistök oft verðmæt reynsla

Haustið 1980 hóf Jóhann að kenna gagnasafnsfræði sem stundakennari við Háskóla Íslands og var fljótlega gerður að aðjunkt, síðan hlutadósent 1983 og að lokum prófessor 1985. „Auk þess gegndi ég ýmsum stjórnendastörfum við skólann og var meðal annars skorarformaður í tíu ár og deildarforseti 1997–99. Sem deildarforseti sat ég í Háskólaráði þar sem meðal annarra núverandi forsætisráðherra sat á móti mér sem fulltrúi stúdenta.“

Gegnum árin hefur hann síðan tekið þátt í að stofna á annan tug fyrirtækja og hafa sum þeirra þróast út í alþjóðleg fyrirtæki. „Önnur hafa mistekist og þar liggur ekki síður verðmæt reynsla til að segja nemendum frá, svo að þeir geri ekki sömu mistök og ég hef gert.“

Eftir að hafa starfað svo lengi við nýsköpun og frumkvöðlastarf hefur Jóhann góðan skilning á hvað mætti betur fara í ytra umhverfi, til dæmis þegar kemur að þætti hins opinbera. „Mér finnst helst að það mætti efla Tækniþróunarsjóð Rannís og hvetja stjórnendur til að skoða betur skrítnu hugmyndirnar. Það eru nefnilega skrítnu og nýstárlegu hugmyndirnar sem geta hugsanlega skapað nýtt alþjóðlegt fyrirtæki á Íslandi.“